Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rannsókn lokið á langstærsta kókaínmáli Íslandssögunnar

18.10.2022 - 17:38
Mynd með færslu
 Mynd: Lögregla
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á langstærsta kókaínmáli Íslandsögunnar er lokið. Málið barst embætti héraðssaksóknara í gær. Þetta staðfestir Anna Barbara Andradóttir, saksóknari hjá embættinu, í samtali við fréttastofu. Fjórir menn hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan ágúst, grunaðir um smygl á hundrað kílóum af kókaíni. Áætlað verðmæti er talið hlaupa á milljörðum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var efnið falið í timbursendingu í gámi. Gámurinn var á leiðinni frá Brasilíu til Íslands en hafði viðkomu í Hollandi. Þar fundu tollverðir kókaínið eftir ábendingu frá lögreglunni hér á landi, efnunum var skipt út og þau komu því aldrei til landsins. 

Ekki liggur fyrir hversu hreint efnið var. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði við fréttastofu í ágúst að efnið hefði verið nokkuð hreint. Áætlað verðmæti er talið hlaupa á milljörðum.

Þetta er langstærsta kókaín-mál Íslandssögunnar. Áður hafði lögreglan mest lagt hald á 16 kíló sem þrír ungir menn reyndu að smygla til landsins í ferðatöskum fyrir tveimur árum.