Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Farið að styttast verulega í opnun Hlíðarfjalls

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Töluverður snjór hefur safnast í Hlíðarfjall ofan Akureyrar að undanförnu. Forstöðumaðurinn segir fyrirspurnir þegar byrjaðar að hrannast inn og stefnt er að opnun á næstu vikum.

Staðan góð miðað við árstíma

Með lækkandi sól styttist í að skíðasvæði landsins verði opnuð. Í Hlíðarfjalli voru starfsmenn í óðaönn að undirbúa veturinn þegar fréttastofa kíkti þangað í morgun. „Svona miðað við að það er miður október þá er hún ansi góð. Við erum búnir að vinna mikið í því í sumar að setja upp nýjar og endurgera snjógirðingar og þær eru klárlega að vinna sitt hlutverk vel,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður.

Stutt í opnun

Nokkur ár eru síðan keyptar voru sérstakar snjóframleiðslubyssur í fjallið. Brynjar segir stutt í að þær verði settar í gang. „Við erum ekki farnir að huga að því að framleiða. Við erum búnir að fara yfir allt snjóframleiðslukerfið og bara þegar við sjáum að við erum með gott frost í fjóra daga þá vippum við þessu bara á sinn stað og og fýrum í.“ 

Þá er það milljón dollara spurningin, hvenær ætlarðu að opna Hlíðarfjall?

„Ég er nú farinn að fá fyrispurnir bara nú þegar, göngufólk vill fara að komast í sporin og við svona erum að belta troðarann okkar. Ætlum að byrja að ýta úr girðingum og vonandi getum við farið að bjóða upp á spor mjög fljótlega. Og ef það heldur áfram að fylla í snjóinn þá verðum við í rauninni að skoða jafnvel að opna. Þó það væri ekki nema föstudagur, laugardagur, bara í Fjarkann og Hólabraut. Bara taka einn föstudag og einn laugardag í tvær til þrjár helgar, svona aðeins að koma fólki af stað. En ef þetta heldur svona áfram þá líst mér ansi vel á veturinn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Hlíðarfjall í morgun