Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sátu föst í bíl í vitlausu veðri í yfir tvo sólarhringa

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Björgunarsveitir voru kallaðir út um kvöldmatarleytið í gær vegna fólks sem ekkert hafði spurst til í rúma tvo sólarhringa. Fólkið fannst rétt fyrir klukkan níu í gærkvöld í bíl á Kollafjarðarheiði og hafði þá setið fast í bílnum í yfir 50 klukkustundir. 

Fólkið, sem er íslenskt, var á leið frá Reykjavík til norðanverðra Vestfjarða en skilaði sér ekki á áfangastað og ekkert heyrst til þeirra síðan síðdegis á föstudag. Björgunarsveitir frá Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri og Hólmavík voru kallaðar út, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. 

Fólkið var á leið vestur þegar síðast heyrðist frá því og upplýsinga var því aflað um það svæði þar sem það var í símasambandi. 

Fannst í bílnum sínum

Fólkið fannst loks rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi í bíl sínum á Kollafjarðarheiði, heilt á húfi. Það var flutt niður af heiðinni og til Hólmavíkur, þar sem það gekkst undir læknisskoðun. Sigurður Árni Vilhjálmsson, formaður Dagrenningar, björgunarsveitarinnar á Hólmavík, segir að vegurinn sem fólkið fannst á sé jeppaslóði, sem ekki sé sinnt að vetri til. Farsímasamband á svæðinu er almennt stopult, en í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum segir að veður á vettvangi hafi verið mjög slæmt um helgina og ekkert farsímasamband þar.

Ekkert skilti

Sigurður Árni segir fólkið hafa stoppað á Kollafjarðarheiði á föstudaginn, og hafði því setið þar fast í bílnum í yfir 50 klukkustundir. „Bíllinn varð olíu- eða bensínlaus. Hann varð það allavega fljótlega,“ segir Sigurður. 

Hann segir fólkið hafa verið þokkalega búið hvað fatnað varðar, en ekki með mikinn mat. Rúða var brotin í bílnum og því varð afar kalt þar inni. 

Aðspurður hvað fólkið var að gera á slóðanum segir Sigurður að Google Maps hafi beint því þá leið. Forritið velji alltaf stystu leið en taki ekki tillit til færðar eða hvernig vegirnir séu. Auk þess sé ekkert skilti sem gefi til kynna lokanir eða að vegurinn sé illfær. 

Sigurður segir fólkið hafa gert allt rétt í stöðunni. „Þau löbbuðu ekki í burtu.“ Það er talin meginástæða þess að ekki fór verr.

Hann segir veður hafa verið afar vont á heiðinni um helgina. „Það var kolvitlaust veður á laugardaginn og aðfaranótt sunnudags.“

Aðspurður hvernig fólkinu hafi orðið við þegar því var loks bjargað segir hann það hafa verið mjög fegið. Því hafi verið orðið nokkuð kalt. „Ætli þetta hafi ekki verið besta tilfinning í lífi þeirra, fram að þessu.“

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV