Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vinstri sveifla tveimur vikum fyrir kosningar

Denmark's Prime Minister Mette Frederiksen gives a press conference in front of Marienborg in Copenhagen, Denmark Wednesday Oct. 5, 2022. Denmark's Prime Minister has announced a General Election to be held at November 1, 2022. (Liselotte Sabroe/Ritzau Scanpix via AP)
Hinn 5. október 2022 boðaði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, til þingkosninga, sem fram fara 1. nóvember.  Mynd: AP - Ritzau Scanpix
Nokkur vinstrisveifla er í dönskum stjórnmálum tveimur vikum fyrir kjördaginn 1. nóvember, ef marka má nýjustu skoðanakönnun fyrirtækisins Epinion fyrir danska ríkisútvarpið DR. Forskotið sem hægri flokkarnir höfðu í könnunum í sumar er horfið og vinstri flokkarnir hafa náð yfirhöndinni.

Í ágúst síðastliðnum mældust hægri flokkarnir með afgerandi forskot og útlit fyrir að Íhaldsflokkurinn gæti orðið stærsti borgaralegi flokkurinn á danska þinginu með tæp 17 prósent atkvæða og 31 þingsæti. Nú mælist flokkurinn með 8.6 prósenta fylgi og hægri - bláa - blokkin samtals með tæplega 44 prósenta fylgi. Vinstri - rauða - blokkin mælist hins vegar með með nær 49 prósenta fylgi.

Óbreytt fylgi Jafnaðarmanna frá síðustu kosningum

afnaðarmenn  verða samkvæmt þessu áfram stærsti flokkurinn á þingi með 47 fulltrúa, einum færri en nú þótt fylgið sé óbreytt frá kosningunum 2019, eða 25,9 prósent.

Venstre, sem fékk 23,4 prósent atkvæða og 43 þingmenn í kosningunum 2019 tapar stórt, gangi þessi könnun eftir, fær 12,9 prósent atkvæða og 23 þingmenn.

Lars Løkke vonast til að ráða úrslitum

Moderaterne, nýr flokkur Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi formanns Venstre, fær samkvæmt könnun Epinion 6,9 prósent atkvæða og 12 þingmenn. Í frétt DR segir að Rasmussen geri sér vonir um að tryggja að Mette Frederikssen raungeri þær hugmyndir sem hún hefur viðrað um að mynda ríkisstjórn yfir miðjuna.

90 þingmenn þarf til að mynda meirihluta á danska þinginu. Samkvæmt könnuninni fengi rauða blokkin 87 þingmenn, bláa blokkin 76 og Moderaterne, sem vilja hvorugri blokkinni tilheyra, 12.

Úrslit í Færeyjum og á Grænlandi gætu skipt sköpum

Segja má að framtíð vinstri-miðjustjórnar Frederiksen velti á tvennu: Niðurstöðum í Færeyjum og Grænlandi annars vegar, og gengi vinstri flokksins Alternativet hins vegar.

Grænland og Færeyjar hafa hvort um sig tvo fulltrúa á danska þjóðþinginu. Falli atkvæði þar á sömu lund og síðast heldur stjórnin naumum meirihluta -- að því gefnu að Alternativet komist yfir 2,4 prósenta þröskuldinn sem þarf til að ná fólki á þing. Sá flokkur mælist nú með nákvæmlega 2,4 prósenta fylgi.

Skekkjumörk þessarar könnunar eru 2,3 prósentustig.