Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Mikill ábyrgðarhluti þegar stjórnmálamenn ala á ótta“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir orðræðuna nú á dögum ala á ótta í garð hælisleitenda. Stjórnmálamenn beri þar mikla ábyrgð.

„Það er auðvitað mikill ábyrgðarhluti þegar fólk í valdastöðu, stjórnmálamenn, ala á ótta í garð fólks sem er í veikri stöðu, og flóttamenn eru kannski sá hópur fólks í heiminum sem eru í hvað veikustu stöðu allra íbúa þessarar jarðar,“ segir Eiríkur.

Sjá einnig: Segir alið á ótta og andúð með óábyrgri orðræðu

Þróunin virðist honum vera á sömu leið og víða erlendis. „Það er mjög margt sem bendir til að svo geti verið en það er í rauninni samt minni efnislegar ástæður til þess heldur en víðast annars staðar,“ segir Eiríkur.  

Þetta geti verið varhugavert. „Við höfum séð það að þegar að svona orðræða fer af stað í garð hópa sem vilja koma, í löndunum í kringum okkur, þá hefur það víða leitt til mjög aukinna átaka í þeim löndum,“ segir Eiríkur.

Ábyrgð stjórnmálamanna að lýsa afstöðu sinni

Dómsmálaráðherra hefur sagt ástandið í málaflokknum stjórnlaust, og vill koma á fót móttökubúðum fyrir hælisleitendur, þar sem þeir dveldu á meðan mál þeirra væru til meðferðar.

Fréttastofa hefur leitað viðbragða annarra ráðherra við hugmyndum dómsmálaráðherra um móttökubúðir flóttamanna en enn sem komið er hefur enginn þeirra tjáð sig.

En hver er ábyrgð þeirra sem þegja? „Þá eiga þeir ekki að vera í stjórnmálum. Stjórnmál ganga út á það að lýsa afstöðu sinni og ef menn hafa öndverða afstöðu við það sem er í bígerð þá er það skylda þess stjórnmálamanns að standa upp og flagga því flaggi sem hann er kosinn fyrir,“ segir Eiríkur.

Gæti reynt á samstarfið

Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafa sagst ósammála dómsmálaráðherra um það að ástandið sé stjórnlaust. 

„Ég hugsa reyndar að þessi mál geti orðið hvað erfiðust fyrir þessa ríkisstjórn sem nú situr. Það eru mjög ólík sjónarmið innan ríkisstjórnarinnar,“ segir Eiríkur. Þannig að þetta gæti orðið átakavetur innan ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.“