Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Katla ávallt í gjörgæslu Veðurstofunnar

16.10.2022 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Þó verulega hafi dregið úr skjálftavirkni í Mýrdalsjökli upp úr hádegi er vel fylgst með stöðunni þar, enda Katla alltaf í hálfgerðri gjörgæslu hjá Veðurstofunni eins og Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur orðar það. Full ástæða er til að vara við ferðum í íshellana við Kötlujökul vegna stöðunnar.

 „Þetta er kannski ekki óvenjuleg virkni en þetta er vissulega umfram venjulega bakgrunnsvirkni,“ segir Salóme í samtali við fréttastofu um jarðskjálftavirknina í Mýrdalsjökli um hádegisbil í dag. Hún segir virknina gefa tilefni til þess að fylgjast vel með stöðunni.

Salóme segir skjálftana í morgun að sumu leyti svipa til upphafsins að því þegar hlaup varð í Múlakvísl árið 2011. Þá varð einnig hviðukennd skjálftavirkni daginn áður en hlaupið varð. Það sem var óyggjandi vísir að því að hlaup eða eitthvað væri að gerast þá var virknin sem kom um kvöldið. Þá mældist sterkur hlaupórói víða um land sem tengdist því. „Það er kannski erfitt að segja hvort þetta sé sams konar eða ekki eins og staðan er núna. Þetta er eitthvað sem við tökum mjög alvarlega. Við erum náttúrulega alltaf með Kötlu í ákveðinni gjörgæslu,“ segir Salóme. Verið sé að skoða stöðuna á mælum við svæðið og allir viðbúnir ef þetta fer að færast í aukana.

„Ég held að það sé full ástæða til að vara við ferðum, til að mynda í íshella í Kötlujökli,“ segir Salóme í samtali við fréttastofu. Hún segir Veðurstofuna búna að vera í sambandi við almannavarnir og lögreglu, og hefur Lögreglan á Suðurlandi ákveðið að loka tímabundið fyrir ferðir í íshellana.