Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir alið á ótta og andúð með óábyrgri orðræðu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Talsmaður Rauða kross Íslands segir alið á ótta og andúð gagnvart hælisleitendum með óábyrgri orðræðu. Honum hugnast illa hugmyndir um móttökubúðir fyrir hælisleitendur, sem myndu í raun glæpavæða þá við komuna til landsins.

Yfirlýsingar dómsmálaráðherra um að koma á fót móttökubúðum fyrir hælisleitendur, þar sem þeir dveldu á meðan mál þeirra væru til meðferðar, hafa vakið mikla athygli. 

Sjá einnig: Vill lokaðar búðir fyrir þá sem er synjað um hæli

„Þessar hugmyndir hugnast okkur alls ekki og þarna er verið að vega að mannréttindum fólks á flótta og raunverulega að glæpavæða þennan hóp við komuna til landsins,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins.

Dómsmálarherra hefur sagt að verið sé að misnota kerfið. En er það reynsla Rauða krossins? 

„Nei það er ekki okkar reynsla,“ segir Atli Viðar. „Og mig langar að minna á að það eru íslenskar stjórnvaldsstofnanir, annars vegar Útlendingastofnun og hins vegar kærunefnd útlendingamála, sem eru ósammála þessum fullyrðingum dómsmálaráðherra, vegna þess að mikill meirihluti þeirra sem koma hingað og sækja um alþjóðlega vernd, fá vernd,“ segir Atli Viðar.

Heldurðu að þetta sé hræðsluáróður? „Það sem við höfum séð almennt í umræðunni í dag er að það eru margir jaðarsettir hópar sem eiga undir högg að sækja og þarna er verið að taka þennan hóp, fólk sem er á flótta, og með óábyrgri orðræðu ala á ótta og andúð í garð þessa hóps, sem hefur ekkert til saka unnið annað en það að þurfa að flýja stríðsátök, mannréttindabrot, ofsóknir, hörmungar og loftlagsbreytingar og svo framvegis,“ segir Atli Viðar.

Sjá einnig: Flóttafólk dvelji allt á einum stað fyrst um sinn

Málefni hælisleitenda heyra undir dómsmála- og félagsmálaráðuneytið. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra, er erlendis og ætlar ekki að svara spurningum um málið fyrr en hann snýr aftur. 

Atli Viðar hefur áhyggjur af þróuninni í umræðunni. „Stjórnvöld ættu að kappkosta það að leggja áherslu á virðingu fyrir alþjóðalögum og  mannréttindalögum, til þess að fólk þurfi ekki að flýja, og að sjá orðræðuna fara í aðra átt, það er áhyggjuefni.“