Um sex þúsund manns fylgja síðunni Antirasistarnir á Instagram. Anna María Allawawi Sonde, Johanna Haile Kebede, Kristín Taiwo Reynisdóttir og Valgerður Emanuela Kehinde Reynisdóttir fjalla þar um málefni fólks af erlendum uppruna.
Þær hafa einnig farið í skóla og frætt nemendur og kennara. Margir hafa sent þeim skilaboð og deilt sínum sögum af kynþáttafordómum á Íslandi.
- Sjá einnig: Var beðin að standa upp og segja frá Afríku
„Viðtökurnar hafa bara verið mjög góðar. Við erum að sjá fólk opna sig meira um rasisma og segja frá því sem það hefur gengið í gegnum og segja bara: „Takk, loksins erum við komin með vettvang“,“ segir Johanna.
Sögurnar sem fylgjendur síðunnar hafa deilt með stjórnendunum eru margbrotnar og jafnvel mismunandi eftir því frá hvaða heimshluta fólk kemur.
„Það er verið að kalla fólk hryðjuverkamenn. Heilbrigðisstarfsmaður, sjúklingur neitaði að fá aðstoð frá aðilanum vegna þess hvaðan aðilinn var,“ segir Anna María.
„Við erum líka að sjá mikið verið að gera kynþætti kynferðislega. Við erum að sjá litaðar konur mæta því sérstaklega,“ segir Johanna og bendir á að það eigi sérstaklega við um konur af asískum uppruna.
Hafið þið orðið fyrir fordómum?
„Já, ekki spurning. Frá barnæsku, maður mátti ekki gera þetta og hitt af því maður var með krullur. Mátti ekki vera með í leikjum,“ segir Anna María.