Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Erfitt að samfélagið líti ekki á mann sem Íslending

Mynd: Kristján / RÚV
Ungar íslenskar konur af erlendum uppruna segja erfitt að þurfa að sætta sig við fordóma sem þær mæta hér á landi. Fordómarnir séu víða, samfélagið líti ekki á þær sem Íslendinga. 

Um sex þúsund manns fylgja síðunni Antirasistarnir á Instagram. Anna María Allawawi Sonde, Johanna Haile Kebede, Kristín Taiwo Reynisdóttir og Valgerður Emanuela Kehinde Reynisdóttir fjalla þar um málefni fólks af erlendum uppruna.

Þær hafa einnig farið í skóla og frætt nemendur og kennara. Margir hafa sent þeim skilaboð og deilt sínum sögum af kynþáttafordómum á Íslandi.

„Viðtökurnar hafa bara verið mjög góðar. Við erum að sjá fólk opna sig meira um rasisma og segja frá því sem það hefur gengið í gegnum og segja bara: „Takk, loksins erum við komin með vettvang“,“ segir Johanna.

Sögurnar sem fylgjendur síðunnar hafa deilt með stjórnendunum eru margbrotnar og jafnvel mismunandi eftir því frá hvaða heimshluta fólk kemur.

„Það er verið að kalla fólk hryðjuverkamenn. Heilbrigðisstarfsmaður, sjúklingur neitaði að fá aðstoð frá aðilanum vegna þess hvaðan aðilinn var,“ segir Anna María.

„Við erum líka að sjá mikið verið að gera kynþætti kynferðislega. Við erum að sjá litaðar konur mæta því sérstaklega,“ segir Johanna og bendir á að það eigi sérstaklega við um konur af asískum uppruna.

Hafið þið orðið fyrir fordómum?

„Já, ekki spurning. Frá barnæsku, maður mátti ekki gera þetta og hitt af því maður var með krullur. Mátti ekki vera með í leikjum,“ segir Anna María.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján - RÚV
Hatursfull skilaboð sem Jóhanna og Anna hafa fengið á samfélagsmiðlum.

Anna og Jóhanna eru sextán og átján ára og þessi hatursfullu skilaboð bárust þeim frá jafnöldrum á TikTok. Mesta persónulega áreitið kemur þar en þó senda margir haturspósta á instagramreikning Antirasista. Þeim er gjarnan sagt að fara til síns heima, þær kallaðar illum nöfnum og einhverjir segjast hafa orðið stoltir rasistar við að hlusta á málflutning þeirra. 

Anna og Johanna segja að þetta fái jafnan ekki mikið á þær dag frá degi, nema níðið sé sérstaklega slæmt eða komi frá einhverjum sem er þeim kunnugur. Þær segja hins vegar að það sé óþolandi að þurfa að sætta sig við hversdagsleika þar sem þær verða stöðugt fyrir kynþáttafordómum. 

„Þetta er bara eitthvað sem ég hef þurft að sætta mig við, bara í allri hreinskilni,“ segir Johanna og bætir við: 

„Ég er Íslendingur, ég fæddist á Íslandi, ég tala íslensku og allt þetta. Allt þetta sem á að „fitta“ í boxið að vera Íslendingur, fyrir utan eitt: Ég er lituð. Ég er svört. Og það er bara rosalega erfitt að þurfa að sætta sig við að samfélagið líti ekki endilega á mann sem Íslending.“