Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Borgin þarf ekki að borga manni sem hjólaði á kanínu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Reykjavíkurborg í lok síðasta mánaðar af bótakröfu manns sem slasaðist töluvert í hjólreiðaslysi eftir að hafa hjólað á kanínu á leið sinni til vinnu. Maðurinn datt af hjólinu, lenti á tré og þurfti að vera tíu daga á sjúkrahúsi.

Slysið varð 2016. Maðurinn krafði Reykjavíkurborg um bætur og sagði það hafa verið á ábyrgð hennar að tryggja öryggi vegfarenda.

Hann sagði aðstæður á hjólastígnum hafa verið óforsvaranlegar, meðal annars hefði verið afar slæm lýsing á slysstað.

Þá mætti rekja slysið til kanínu sem hefði hlaupið í veg fyrir hann. Borgaryfirvöld hefðu í mörg ár verið meðvituð um kanínufaraldur á svæðinu en ekkert gert fyrr en eftir slysið og fjölmiðlaumfjöllun eftir það.

Hann sagði að starfsmenn borgarinnar hefðu verið meðvitaðir um að slysum hefði fjölgað eftir árekstra við kanínu en samt ekki gripið til ráðstafana.

Héraðsdómur segir að Reykjavíkurborg hafi mátt vera að ljóst að kanínu gætu valdið truflun fyrir hjólreiðamenn. Kanínur teldust hins vegar til villtra spendýra og njóti verndar samkvæmt lögum. „Það gefur augaleið að kanínur geta  líkt  og  önnur  dýr,  svo  sem  fuglar,  kettir  og rottur,  átt leiðum göngu-og hjólreiðastíga borgarinnar,“ segir héraðsdómur og bætir við að það hefði ekki verið einfalt fyrir sveitarfélagið að stemma stigu við slíku. 

Dómurinn telur jafnframt að ekki verði séð að hægt hefði verið að koma í veg fyrir slysið með betri lýsingu eða spegli.  Var borgin því sýknuð.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV