Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eru krákur kannski menn?

Mynd: Gavin Hun / Cornell University

Eru krákur kannski menn?

11.10.2022 - 12:30

Höfundar

„Þekkt er að krákur og hrafnar hafi lengi þótt bráðgáfuð dýr, en það endurspeglast til dæmis í norrænni goðafræði þar sem hrafnar Óðins bera nöfnin Huginn og Muninn, sem tákna hug og minni.“ Fróði Guðmundur Jónsson, dýraatferlisfræðingur og pistlahöfundur Lestarinnar, fjallar um menningu kráka.

Fróði Guðmundur Jónsson skrifar:

Í síðustu viku flutti ég pistil um söngmenningu hnúfubaka. Í þeim pistli var hugtakinu menning gerð skil og menning innan dýrasamfélaga reifuð. Ég ætla ekki að endurtaka alla þá ræðu en mig langar að skerpa örstutt á umfjöllunarefninu. Menning er fyrirbæri, þekking eða atferli sem á sér stað í samfélagi og er viðhaldið með félagsnámi, en félagsnám dýra er sá lærdómur sem er auðveldaður með því að fylgjast með, umgangast eða eiga samskipti við annað dýr—oftast af sömu tegund—eða afurðir þess.

Uppsöfnuð menning

Innan fræðasviðs dýramenningar er hugtak sem hefur fengið aukna rannsóknarathygli á síðustu tveimur áratugum. Hugtakið er ekki enn til á íslensku að mér vitandi, en kallast á ensku cumulative culture, sem ég þýði í þessum pistli sem uppsöfnuð menning. Uppsöfnuð menning á sér stað þegar samfélag gerir breytingar á menningarlegu fyrirbæri og nýja útgáfan er bæði skilvirkari og leysir þá gömlu af hólmi. Breyttu útgáfuna þurfa dýrin innan samfélagsins að læra með félagsnámi, og allt ferlið þarf svo að endurtaka sig að minnsta kost einu sinni í viðbót, til þess að sýna fram á stigvaxandi uppsöfnun. Með tímanum verður nýjasta útgáfan svo flókin að enginn gæti fundið hana upp án þess að hafa aðgang að þeim menningarlega auði sem fyrri útgáfur eru. Auðveldast er að koma auga á uppsafnaða menningu í þróun hinna ýmsu áhalda. Gott dæmi um það er þegar steinaldarmaðurinn fór að breyta kastvopnum sínum úr ávölum hnullungum í oddhvassa steina, sem síðar urðu að spjótum. Uppsöfnuð menning er því hornsteinn tækniþróunar mannanna.

Menn eru þó ekki einir um að framleiða og nota áhöld. Sýnt hefur verið fram á að þónokkrar dýrategundir nota áhöld, einkum við fæðuleit. Helsti fulltrúi áhaldanotkunar dýra er simpansinn, sem er—ásamt bónóbó öpum—okkar nánasta skyldmenni. Simpansar nota áhöld við fæðuleit og félagsleg samskipti sem og til þess að snyrta sig. Það var þó ekki fyrr en á sjöunda áratug 20. aldar sem menn urðu meðvitaðir um að dýr gætu notað áhöld. Vettvangsrannsóknir prímatafræðingsins Jane Goodall á simpönsum árið 1964 voru þær fyrstu sem sýndu svart á hvítu að dýr hafa hæfni til þess að nota áhöld, en fram að því var sú hæfni talin vera manninum einum fær. Leiðbeinandi Goodall, Louis Leakey, lét við þessa uppgötvun þau frægu orð falla að nú yrðum við „að endurskilgreina áhöld, endurskilgreina manninn eða samþykkja simpansa sem menn”—svo merkileg þótti þessi uppgötvun. Þrátt fyrir tilkomumikla áhaldaleikni frænda okkar hefur gengið treglega að sýna fram á að menningarleg fyrirbæri þeirra geti flokkast sem uppsöfnuð menning. Þó nokkur þeirra séu nálægt því eru rannsóknarlegar skorður því settar að hægt sé að raunprófa þau til hlítar.

Dýr þurfa ekki hendur til áhaldanotkunar

Það er önnur dýrategund sem nú er talið að eigi ríkara tilkall til þess heiðurs að vera fyrsta dýrið sem á sér uppsafnaða menningu, öllum skilgreiningum samkvæmt, en sú tegund er af hröfnungaætt. Þekkt er að krákur og hrafnar hafi lengi þótt bráðgáfuð dýr, en það endurspeglast til dæmis í norrænni goðafræði þar sem hrafnar Óðins bera nöfnin Huginn og Muninn, sem tákna hug og minni. Nýju-Kaledóníukrákur, sem finnast eins og nafnið gefur til kynna einungis á eyjaklasanum Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi, eiga sér einstaka áhaldamenningu. Sérlega gagnlegt og áhugavert veiðiáhald sem þær eiga í vopnabúri sínu er langt prik með krók eða öngli á endanum. Veiðarfærið er notað til þess að nálgast skordýr sem leynast jafnan í þröngum og djúpum holum í trjábolum.

Upphaflega hafa Nýju-Kaledóníukrákurnar notað einfalt prik til veiðanna, sem þær gera enn af og til, en síðar tóku þær upp á því að búa sjálfar til krók á enda priksins. Þessi króksáhöld eru sterkir kandídatar fyrir uppsafnaða menningu, þar sem þau eru talin hafa þróast út frá einföldu prikunum. Enn fremur benda rannsóknir til þess að króksáhöldin séu allt að 13 sinnum skilvirkari en einföldu prikin við veiðar á skordýrum. Einnig er útlit fyrir að dýpt krókanna sé að aukast, það er að öngullinn sé að lengjast, en rannsóknir hafa sýnt að dýpri krókar eru skilvirkari en grunnir, svo sú breyting gæti því verið enn einn liðurinn í þessari uppsöfnuðu menningu krákanna. Þetta skilvirka áhald uppfyllir því þær kröfur um uppsafnaða menningu að áhaldinu sé breytt svo það verði skilvirkara og að breytta áhaldið leysi það gamla að mestu af hólmi. Krákurnar hafa sýnt fram á hugræna getu til þess að átta sig á þeim eiginleikum áhaldanna sem mestu máli skipta, eins og að stilkurinn sé stífurvi og krókurinn sé djúpur, sem merkir að þær búi sennilega yfir hæfni til þess að fara endurtekið í gegnum betrumbætingarferlið, en þær hafa þegar gert það að minnsta kosti tvisvar. Þá er einungis eitt skilyrði eftir til þess að uppfylla, en það er jafnframt það sem þykir öllu erfiðast að sýna fram á—að krákurnar læri áhaldamótunina og -notkunina félagslega.

Krákurnar læra sennilega hver af annarri

Félagsnám er ekki einungis það að sjá atferli og herma eftir því, það getur verið talsvert fjölbreyttara. Tvær kenningar eru á lofti um það hvernig Nýju-Kaledóníukrákurnar öðlast færnina til þess að búa til og nota króksáhöld og báðar eru þær af félagslegum toga. Annars vegar eru ungar krákur af þessari tegund háðar foreldrum sínum óvenju lengi og hafa því mikinn tíma til þess að fylgjast með foreldrum sínum við þessa iðn, og fá jafnvel við og við að halda á og nota áhöld sem foreldrarnir hafa smíðað, sem gæti auðveldað lærdóminn. Hin kenningin er sú að krákurnar læri af afurðum, frekar en einstaklingum. Þær gætu því rekist á og notað áhöld sem aðrar krákur hafa skilið eftir og út frá því lært á þau. Nýleg rannsókn sýnir einmitt að krákurnar eru færar um að halda sniðmátum af lögun hluta í huga sínum, þó að hlutirnir sem notaðir voru í rannsókninni væru ekki króksáhöld.

Í stuttu máli sagt er því margt sem bendir til þess að króksáhöld Nýju-Kaledóníukráka hafi þróast samkvæmt uppskrift uppsafnaðrar menningar, og að þær séu sennilega fyrsta dýrið til þess að geta talist eiga uppsafnaða menningu, þó simpansarnir séu ekki langt undan. Þessar merku krákur, ásamt öðrum tegundum af hröfnungaætt, koma sífellt á óvart með hugviti sínu. Fyrr á þessu ári tilkynnti Háskólinn í Cambridge, Englandi, áform sín um að loka hröfnungarannsóknarstöð sinni vegna fjárhagslegra örðugleika skólans eftir heimsfaraldurinn og Brexit , en stöðin var stofnuð og er rekin af Nicolu Clayton, prófessor við háskólann. Þetta fékk mikið á almenning og fræðasamfélagið, þar sem merkar uppgötvanir eru tíðar innan þessarar rannsóknarstöðvar, en henni var að lokum bjargað frá lokun með frjálsum framlögum almennings, sem námu í heild um 500.000 pundum, eða rúmlega 80 milljónum króna. Það er því augljóst að fólk hefur mikinn áhuga á hugrænum afrekum hrafna og kráka og skeytir ekki um það að þurfa að deila titlinum um uppsafnaða menningu með annarri dýrategund. Svo má velta því fyrir sér, eins og Louis Leakey gerði fyrir hartnær 60 árum síðan, hvort þessar uppgötvanir merki að það þurfi að endurskilgreina áhöld, endurskilgreina manninn eða samþykkja Nýju-Kaledóníukrákur sem menn.

Fróði Guðmundur Jónsson flutti pistil sinn í Lestinni á Rás 1. Hlýða má á þáttinn hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Pistlar

Sönglög hnúfubaka geta dottið úr tísku

Samgöngumál

Óheillakráka talin hafa valdið stórtjóni í Noregi

Náttúra

Hröfnum fjölgar á höfuðborgarsvæðinu

Innlent

3.000 hrafnar veiddir á hverju ári á Íslandi