Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Einmana konur þá og nú

Mynd: RIFF / Samsett

Einmana konur þá og nú

11.10.2022 - 13:48

Höfundar

Elísabet gefur ekki bara samtíma sínum fingurinn heldur líka nútímanum. Hún gefur ekki bara leiðindapúkum fingurinn heldur líka úreltum kerfum. Úreltum hugmyndum um kyn og fegurð, lífshættulegum korsilettum og öllum aðþrengjandi tólum nútímans.

Boðbera haustsins í höfuðborginni, Kvikmyndahátíð Reykjavíkur, lauk í gær eftir viðbuðraríka daga. Sjálf sá ég nokkrar myndir, misgóðar auðvitað, en varð ekki fyrir vonbrigðum með eina einustu. Þvílík veisla að njóta góðs af vel völdu efni úr óvæntum áttum. Þegar kona á barn sem getur ekki passað sig sjálft er erfitt að vera skipulögð og útkrassa dagskrárbæklingin, eina ráðið að hoppa af stað þegar færi gefst. Ég náði síðasta slíka hoppinu um helgina og horfði á tvær leiknar myndir í röð, báðar frá Austurríki, Veru, sem gerist í Róm nútímans, og Corsage, sem gerist í Vín undir lok keisaraveldisins. Tvær gjörólíkar myndir hvað varðar alla framsetningu en það kom skemmtilega á óvart hvað þær töluðu vel saman, allavega í kollinum á mér. Báðar fjalla um einmana konur sem komast ekki undan þeim örlögum sem umhverfið hefur skapað þeim. 

Vera, í leikstjórn Tizzu Covi og Rainer Frimmel, fjallar um ítalska konu, Veru Gemma, sem leikur sjálfa sig í myndinni. Myndin dansar því á áhugaverðri línu, notar raunveruleikann en fléttar honum í leikinn skáldskap. Vera er þekkt á Ítalíu, hefur leikið í nokkrum kvikmyndum og raunveruleikaþáttum, en er föst í því hlutverki að vera dóttir föður síns. Faðir hennar var dáður leikari, þekktastur fyrir hlutverk í spagettívestrum, en einnig fyrir fagurt andlit og vel stæltan líkama.

Vera ráfar um götur Rómar og reynir að fylla upp í einmanaleikann og tilgangsleysið með dýrum merkjavörum og sífellt stærri brjóstum. Strax í fyrstu senu myndarinnar gengur hún ein úr gleðskap þar sem hún dansar eins og hlutur í sviðsmynd frekar en kona sem skemmtir sér, hún gengur inn á bar og leitar uppi samræður við ókunnuga stúlku. Talar um fegurðina, og hvernig hún hafi alist upp við brenglaðar hugmyndir um fegurð. Horfir á saklaust andlit stúlkunnar og við sjáum tómleika og sorg í stífmáluðum augunum á strektu andlitinu.  Hvítar hárlengingarnar liggja á svarta leðursamfestingnum og við vitum að þessi kona hefur lifað tímana tvenna. Með svartan hatt á höfði, sötrandi tequila-skotið sitt, minnir hún á einmana kúreka í landslagi Rómar. Hún gengur fram hjá sögufrægum gosbrunnum borgarinnar og það er óhjákvæmilegt að hugsa til Anitu Ekberg, en hér er ekkert Dolce Vita, þeir tímar eru liðnir og Vera birtist mér sem sorgleg afleiðing hugmyndarinnar um hina fullkomnu fegurð. 

Andlit Veru ber vott um margar lítaaðgerðir og hún verður í myndinni  táknmynd alls þess sem er brenglað við fegurðardýrkun samfélagsins. Dýrkun sem hefur kannski hvergi farið jafnt hratt úr böndunum og á Ítalíu, þökk sé meðal annars Berlusconi sem á nær allar sjónvarpsstöðvar landsins og þar sem hugmyndin um hina fullkomnu konu hefur birst landsmönnum síðustu áratugi, þögla konu sem brosir í bikiníi. Ítalska fræðikonan Gloria Nardini hefur fjallað ítarlega um hugmyndir Ítala um fegurð síðustu ár, með vísunum í aldagamla menningararfleifð en einnig hvernig hugmyndin hefur ýtt undir áherslu á útlit frekar en innihald, hvort sem það í sjónvarpi eða pólitík. En það þarf svo sem ekki að lesa lærðar ritgerðir til að átta sig á hlutgervingu kvenna og þráhyggjukenndum hugmyndum um hina klassísku fegurð á Ítalíu. Allir sem hafa kveikt á sjónvarpi vita hvað hér er átt við, þó vissulega hafi margt breyst síðustu ár.

Vera er vissulega fáklædd, en hún brosir ekki. Í þau fáu skipti sem hún sýnir gleði er í samskiptum við fjölskyldu sem verður á vegi hennar í sögunni. Fjölskyldu sem veitir henni lífsfyllingu og tilgang, en sem kemur í ljós að notar hana, líkt og aðrir sem verða á vegi hennar. Samferðafólk Veru sér ekkert nema framhliðina sem hún sjálf hefur skapað, framhlið sem er samt í raun ekki hennar eigin heldur afsprengi firrtra hugmynda samfélagsins. Framhlið sem er plastfyllt andlit og barbídúkkulegur klæðnaður, útlit sem verður henni að falli hvar sem hún kemur. Hún er dæmd af öllum en samt er hún nákvæmlega það sem neyslusamfélagið bað um. Og þar liggur kannski hennar mesti harmur. Hún er komin á miðjan aldur en öll hennar sjálfsmynd byggist á því hvaðan hún kemur en ekki hver hún er. Hún fær ekki vinnu því útlit hennar er of….eitthvað. Of nútímalegt fyrir períódu-drama, að sögn leikstjórans sem vill ekki ráða hana þó að hann dýrki föður hennar. Enginn virðist sjá hina sönnu Veru, einmana Veru sem þráir það sama og flestir, að vera elskuð og finna sér tilgang í lífinu.

Aðalpersóna Corsage, í leikstjórn Marie Kreutzer, er alls ekki ólík Veru, þó hún sé uppi á allt öðrum tíma. Elisabet, keisaraynjan af austur-ungverska keisaradæminu, þráir líka að vera elskuð og að hafa tilgang. Á sínum tíma var Elísabet hálfgert fegurðaríkon og áhrifavaldur þegar kom að útliti og tísku og óttaðist víst fátt meira en að eldast og um leið umbreytast. Og þannig er hennar minnst. Ekki fyrir víðáttumikla þekkingu á heimsmálum og heimspeki, tungumálakunnáttu, skriftir eða ljóðagerð.  Saga hennar gerist í sömu álfu, rúmri öld áður, en er samt líka saga nútímakonunnar Veru. Hún er líka föst í fótsporum föðurins, sinni eigin konunglegu arfleifð, og þess kerfis sem hefur haldið gamla heiminum uppi, þar sem keisarinn er ekki með kúrekahatt heldur risastóra og vel loðna barta. Föst í kerfi sem er á þessum tíma í sögunni að hruni komið, eins og sést svo glöggt í listilega vel hugsaðri leikmynd. Hallirnar sem óhamingjusama drottningin ferðast á milli, virðast allar vera að hruni komnar. Aðalsfólk í silkifötum situr til borðs með fjölda þjóna, postulín og gullhnífapör, en flögnuð málningin og djúpar sprungurnar segja aðra sögu. 

En þó að keisaraveldið líði undir lok ekki löngu eftir dauða Elísabetar, þá er auðvitað ekki hægt að segja það sama um feðraveldið. Fallega drottningin er gift einhverjum valdamesta manni álfunnar en hefur auðvitað engin völd yfir eigin lífi. Hún brosir aldrei ekki frekar en Vera, hún leikur sjálfa sig í leikriti sem hún vill ekki taka þátt í. Hún horfir á aðra borða dýrindis mat og stunda lífsins lystisemdir en nýtur einskis sjálf. Drekkur vatn og borðar þunnt skornar appelsínusneiðar og kjötsoð í öll mál, til að komast í korsilettið, eða lífstykkið. Að þrengja fastar að er það sem allt snýst um. Fólk talar um útlit hennar og  mittismál hennar er mælikvarði á líf hennar. Því mjórra mitti því betri kona. 

Korsilettið er fyrir löngu orðið að táknmynd fyrir skorðurnar sem samfélagið setur konum og fáránlega mjótt mittið kallast hér vel á við gróthörð brjóst og yfirmátastórar varir Veru. Báðar eru konurnar aðþrengdar og engan veginn frjálsar í eigin líkama. Myndlíkingin um korsilettið er kannski frekar auðveld ef svo má segja, en það er þó ekkert auðvelt við hryllinginn sem það stendur fyrir. Elísabet er ekki aðeins þunglynd heldur einnig þjökuð af öðrum lífshættulegum sjúkdómi, anorexíu.

Aðalleikkonan Vicky Krieps er algjörlega frábær sem óhamingjusama og uppátækjasama Elísabet. Djúpt þunglyndi hennar er svo málað listilegum dráttum í allri framsetningu og hægum takti myndarinnar.  Nístandi vanlíðan verður enn sýnilegri innan um allt prjálið og dekadensið. Og eftir að hafa nýlokið við að fylgja Veru eftir, varð þessi sorg á einhvern hátt almenn og táknræn fyrir allar konur sem hafa tapað lífi sínu fyrir reglum sem virðast svo firrtar en sem eru enn sprelllifandi um víða veröld.

Ein af mörgum fögrum senum myndarinnar er þegar Elísabet og hirðmeyjar hennar sitja eina kvöldstund úti í garði við sumarhöllina og njóta tónlistar. Njóta er reyndar ekki rétta orðið því þær virðast alls ekki njóta neins, hvorki stundarinnar né tónlistarinnar. Þær sitja uppstilltar eins og brúður og hlusta, saman en samt hver í sínu lag. Andrúmsloftið mjög í anda Edwards Hopper, nema í stað stórborgarinnar er það hér ríkidæmið og kynhlutverkið sem undirstrikar einmanaleikann.

Í þessari sömu senu er leikið með nútímalega hluti í samhengi fortíðarinnar, eins og gert er á fleiri stöðum í myndinni, en alls ekki allan tímann, heldur er nútímanum laumað inn, hann látinn tala við fortíðina þegar við á. Hér í garðinum er það lagið  As Tears Go By, samið af Rolling Stones og sungið af Marianne Faithful árið 1964, sem spilað er af hörpuleikara fyrir drottninguna. Aðferð sem gerir söguna tímalausa. 

Það sama má segja um senuna þar sem Elísabet gengur á dyr frá þrúgandi leiðinlegu borðhaldi og gefur um leið öllum sem þar sitja  fingurinn. Hér er Elísabet ekki bara að gefa samtíma sínum fingurinn heldur líka nútímanum. Hún gefur ekki bara leiðindapúkum fingurinn heldur líka úreltum kerfum. Úreltum hugmyndum um kyn og fegurð, lífshættulegum korsilettum og öllum aðþrengjandi tólum nútímans. Hér tekur hún upp hanskann fyrir Veru og öll þau sem hafa fyrir löngu fengið nóg af kúgandi reglum gamla heimsins. Og það er sama hvaða nöfnum sá heimur er nefndur, keisaraveldi, feðraveldi eða neysluveldi. Það er að minnsta kosti veldi þar sem hvorki Elísabet né Vera hafa valdið.