Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ömurlegt að lesa um að einhver ætli að myrða mann

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að sér þyki ömurlegt að lesa samskipti manna sem ræddu um að myrða hana. Mennirnir eru í gæsluvarðhaldi, grunaðir um undirbúning hryðjuverka. Þeir ræddu líka um að myrða formann framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins. Þá komu þingmenn Pírata við sögu í samskiptum mannanna. Landsréttur stytti í dag gæsluvarðhald og einangrun yfir mönnunum úr tveimur vikum í eina.

Karlmennirnir tveir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan 21. september. Meðal þess sem skoðað hefur verið eru samskipti mannanna meðal annars í gegnum samskiptaforritið Signal. Embætti héraðssaksóknara gefur ekki upp hve mörg hafi verið nefnd í samskiptunum eða hve mörgum mennirnir hafi talað um að vinna mein.

Fram kom á samstodin.is að þeir hefðu rætt um morð á Gunnar Smára Egilssyni formanni framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar. Þau voru kölluð til lögreglu til að gefa skýrslu sem vitni. Sömuleiðis þeir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata og fyrrverandi þingmenn Pírata, Smári McCarthy og Helgi Hrafn Gunnarsson, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Hjá lögreglu voru Sólveigu Önnu sýnd samskipti mannanna: 

„Þar kom að væri sem sagt svokölluð kommalufsa og að aðili sem var þátttakandi í þessum samskiptum ætlaði sér að drepa mig einn daginn,“ segir Sólveig Arnna.  

Hvernig var þér um?

„Ja, auðvitað var þetta fyrst bara svolítið skrýtið, auðvitað óþægilegt. En það var kannski ekki svona bara þegar ég kom heim um kvöldið og settist niður með fjölskyldunni minni og við fórum að ræða þetta þar sem ég hætti að gera lítið úr þessu og hætti að grína einhvern veginn með þetta með sjálfum mér og auðvitað bara horfðist í augu við það með þeim að þetta væri sannarlega ekkert grín, auðvitað bara mjög alvarlegt og ömurlegt að þurfa að upplifa svona og sjá svona.“

Sólveig Anna segist ekkert þekkja til mannanna sem áttu í samskiptum, en segir að vissulega hafi hún verið gagnrýnd og að mörgum sé illa við hana. Síðastliðinn vetur var henni til dæmis hótað líkamsmeiðingum og lét hún lögreglu vita um það. 

„Ég fæ mér enga öryggisgæslu og við bara tökumst á við þetta ég og fjölskyldan mín. Förum bara varlega eins og ég segi eins og við höfum verið að gera síðustu mörgu mánuði löngu áður en ég vissi af þessu.“