Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þjóðlegar kynjaverur í alþjóðlegum grúvstraumum

Mynd: Aðsend / Aðsend

Þjóðlegar kynjaverur í alþjóðlegum grúvstraumum

09.10.2022 - 10:00

Höfundar

„Lagið er suddalegur grúvhundur keyrður áfram af gruggugu surgi og reffilegum sörf-gítar í bland við lafandi harmonikku og flöktandi mannsraddir í óræðu söngli,“ segir Davíð Roach Gunnarsson um lagið Melrakki sem finna má á plötunni Hiatus Terræ sem hann rýnir í.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Ein af áhugaverðustu breiðskífum íslenska sumarsins, hvers útgáfa fór glæpsamlega lágt, var hin forvitnilega titlaða Hiatus Terræ eftir listamanninn Ara Árerlíus, sem inniheldur gítardrifna grúvtónlist að mestu leyti án söngs. Instrumental tónlist sem er ekki hreinræktuð raf- eða danstónlist hefur alltaf verið frekar utangarðs og munaðarlaus bæði í íslenskri tónlistarflóru og alþjóðlegri, og ekki líkleg til vinsælda. En á Hiatus Terræ er að finna myljandi hrynjandi, kyngimögnuð grúv og sprúðlandi gítarleik sem eru í senn frá heiminum og að heiman, bæði al- og þjóðleg, og tónlistin er ekki af neinni íslenskri senu heldur ólík öllu öðru sem er í gangi.

Upp

Ari Árelíus er listamannsnafn Ara Franks Ingusonar sem hefur gefið út sungna indítónlist undanfarin ár. Ég hef tekið eftir henni útundan mér með öðru eyranu og þó að hún væri vönduð og hugvitsamleg, vel spiluð og hugsuð, greip hún mig aldrei fyllilega. Það er einfaldlega bara ofhleðsla af tónlist í svipuðum geira búin að vera sveimandi yfir indísenunni allt frá því Belle and Sebastian og Arcade Fire, sami kjútsí krútt hljóðheimurinn með smotterí af strengja- og brassútsetningum, þannig maður er orðinn hálf ónæmur fyrir henni. Ég heyrði hins vegar það orð af tónleikum Ara í vor að hjá honum væri komið allt annað hljóð í strokkinn, instrumental grúvkeyrsla ólík fyrra efni, og það vakti áhuga minn. Í byrjun sumars heyrði ég svo lagið Melrakki og það stóð vel undir þeim væntingum sem höfðu verið kveiktar.

Lagið er suddalegur grúvhundur keyrður áfram af gruggugu surgi og reffilegum sörf-gítar í bland við lafandi harmonikku og flöktandi mannsraddir í óræðu söngli. Takturinn og samsetningin hefur samstundis líkamleg áhrif og triggerar eititthvað innra hrynskin í skriðdýrsheilanum, þannig hálsinn byrjar að gefa sig og útlimirnir verða undir eins að iðandi djellí. Ekki beint danstónlist en samt eins líkamlegt og það gerist. Laginu fylgir svo ævintýralegt stop-motion brúðumyndband sem er passlega höktandi og hundrað prósent viðeigandi. Vitund mín var glaðvakandi og skynfærin alelda.

Nýtt heimskort

Það verður ekki hjá því komist þegar hérna er komið sögu að minnast á bandaríska bandið Khurangbin sem tónlist Ara á vissan hljóm- og hugmyndafræðilegan grunn sameiginlegan með. Ég hef áður fjallað um þá frábæru einingu á þessum vettvangi, hljómsveit sem samanstendur af gítar, bassa, trommum, og söngli, sem leggur allan heiminn að fótum sér, og sækir til dæmis í fönk og sálarskala frá rómönsku ameríku, Afríku, austurlöndum nær og fjær, og allt þar á milli. En melódíska og spígsporandi gítarvinnslan hans Ara er samt engin eftiröpun, og hann hendir í púkkið þjóðlegum fimmundarskölum úr sínum alíslenska ranni og teiknar þannig upp nýtt kort af heiminum sem er algjörlega hans eigin hugarsmíð.

Platan sem heild svíkur ekki þessar væntingar og er öll í sama glæsta þjóðsagna-anda og Melrakki, sem ég nefndi áðan, og er jafnframt upphafslag hennar. Ari lærði á gítar í FÍH en það hljóðfæri leiðir vissulega plötuna á hátt sem er leitandi og ævintýragjarn, en hjakkar aldrei í troðnum slóðum. Annað lagið Galdrafluga byrjar eins og dáleiðandi galeiða með hikstandi bassagangi og lágstemmdum áslætti, og harmonikkuhljómar umfaðma það allt um kring. Fjarvera mannsraddarinnar gerir hana svo bara þeim mun áhrifameiri þegar hún loksins birtist, en Ahmmmmmmmmmm-in í galdraflugunni eru sem punktarnir og kommurnar yfir öllum sérhljóðunum, lagið hefði virkað stórvel án söngsins, en þegar hann kemur er hann rjóminn sem flýtur ofan á.

Fæddist í íslenskri sjoppu

Ari hefur sagt að á plötunni hafi hann leitast við að spegla hið íslenska í hinu alþjóðlega. Neistinn að verkinu hafi kviknað í kaffibolla á Bláhorninu á Grundarstíg þegar níkaragúskar kaffibaunir hafi frussast ofan í heiðmerkursgrunnvatn í stálheiðarlegri og alíslenskri hornsjoppu. Kosningar hafi verið nýafstaðnar með samsulli þjóðernishyggju og alþjóðvæðingar, og bognefur lentur í Vatnsmýrinni. Ari sagði í viðtali í Fréttablaðinu í sumar: „Þessi plata var undir þessum for­merkjum, lókal glóbal. Það er að taka eitt­hvað sem er stað­bundið og ís­lenskt og para það saman við heims­tón­listar­stefnuna, þó að ég sé ekki hrifinn af því hug­taki. En þetta er tón­list úr öllum áttum.“

Ari segist hafa unnið með þjóðlegar tónlistarhefðir á plötunni, fimmundarhljóma og langspil. Langspil er gamalt íslenskt strokhljóðfæri skylt sítar, viðarstokkur með tveimur til fjórum strengjum strokið með hrossahársboga, en Ari bjó til rafmagnaða útgáfu af því, sem hann kallar rafspil. Hann sótti innblástur í þjóðsögur Jóns Arasonar og heimsóknir á þjóðminjasafnið, en upp úr því spratt tónlist fyrir ókannaðar íslenskar eyðimerkur og svarta sanda, þar sem kynjaverur þrífast og mannskepnan er í upplausn. Hann var með eldgamalt Íslandskort sem innihélt ýmsar kynjaverur upp á vegg við gerð plötunnar og á því var að finna svæðið Hiatus terraæ, sem platan tekur nafn sitt frá. „Öll lögin á plötunni eru þaðan og snúast um þetta svæði sem er ó­skil­greint af manninum,“ segir Ari, og og bætir við að lögin á plötunni, eins og Melrakki og Galdrafluga, vísi öll í skepnur.

Ferðalag um undirmeðvitundina

Gítarinn er eins og áður segir í fararbroddi á plötunni, eiginlega aðalsöngröddin ef svo mætti segja. En við hann styðja reffilegir bassagangar og ágengur ásláttur, stundum í hálfgerðum reggítakti eins í Sömu bein sem hér ómar. Þar má líka heyra plonkandi píanógutl, útteygðar harmónikkumottur og draugalegar hljómborðsþokur sem gítarplokkið syndir í og rétt svo heldur sér á floti. Hér er allt undir og ekkert eins og það sýnist.

Í sjötta lagi sést svo til Sólar þegar fönktröllin verða að grjóti og heiðríkir geislar skína í augu taktvísra furðurvera sem busla og gára annars spegilsléttan fjörðinn. Sjórinn tekur öllum opnum örmum og leyfir hlustendum að komast til botns í sér, þangað sökkvum við viðstöðulaust og hamskiptumst hvort við annað, dillum mjöðmunum í takt við golfstrauminn, böðum okkur í víbringnum, föllum í yfirlið í aðfallinu. Ferðalaginu er lokið en það hófst þar sem það byrjaði, í hinu óræða landsvæði undirmeðvitundarinnar Hiatus Ter­ræ sem Ari Árelíus vefur svo ofskynjandi og sindrandi fallega á samnefndri breiðskífu sinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Þjóðlagatónlist á rófinu rokkaði Hljómahöllina

Tónlist

Fyrst tóku þau Berlín, fóru svo í Buxur

Pistlar

Ölvið ykkur viðstöðulaust

Tónlist

Ferðast til Portúgals með engin plön