Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Biðst afsökunar á orðalagi ummæla um Grænland

epa07553737 Danish Minister of Justice Soeren Pape meets voters to launch the election campaign at Hoejbro Plads in Copenhagen, Denmark, 07 May 2019. Prime Minister Rasmussen earlier today announced general elections to be held on 05 June 2019.  EPA-EFE/Nils Meilvang  DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Formaður Íhaldsflokksins danska hefur beðið grænlenskan þingmann á danska þinginu afsökunar á ummælum sem hann lét falla um heimaland hennar. Ummælin hafi verið illa orðuð.

Aaja Chemnitz Larsen, þingmaður Inuit Ataqatigiit, sagði við þingsetningu í vikunni að hún hefði frétt frá fleirum en einum að Søren Pape, formaður Íhaldsflokksins, hefði talað um Grænland sem ísilagða Afríku.

Danska ríkisútvarpið og það grænlenska KNR fjalla um þetta á vefjum sínum. Pape kvaðst ekki minnast þeirra orða sinna. Daginn eftir sneri hann við blaðinu í samtali við Extra bladet og kvaðst hafa meint að hann liti á Grænland sem einskonar þróunarland. 

Aaja Chemnitz Larsen þingmaður IA á danska þinginu. Hún er annar tveggja þingmanna Grænlendinga á Þjóðþingi Dana, Folketinget.
 Mynd: Inuit Ataqatigiit Folketingimi

Orðin hafi hann látið falla í boði bandaríska sendiherrans fyrir mörgum árum. Pape, sem ætlar sér forsætisráðherrastólinn í Danmörku að afloknum kosningum 1. nóvember, kveðst alltaf taka hreinskilnislega til orða.

Chemnitz kveðst einmitt hafa viljað vita hvaða hug mögulegur forsætisráðherra bæri til Grænlands.

Pape segist hafa viljað vísa til „þess gífurlega fjölda barna sem verða fyrir sifjaspellum á hverju ári, þess fjölda heimila þar sem launin fara að stórum hluta til áfengiskaupa og hve tíð sjálfsvíg séu á Grænlandi“. Samlíkingin hafi ekki verð sérlega pen, segir Pape, en kveðst þó ekki sjá eftir merkingu orða sinna. 

Aaja Chemnitz staðfestir að hafa fengið afsökunarbeiðni frá Pape í einkaskilaboðum. Hins vegar segir hún Pape fremur hafa átt að biðja alla grænlensku þjóðina afsökunar á því sem hann sagði.