Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir heiminn sjaldan verið nær kjarnorkustyrjöld

epa10226834 Members of the media are reflected in the sunglasses of US President Joe Biden before his departure to Poughkeepsie, New York, at teh White House in Washington, DC, USA, 06 October 2022.  EPA-EFE/Yuri Gripas/ABACA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Bandaríkjaforseti segir heiminn aldrei hafa staðið jafnnærri kjarnorkustríði síðan í Kúbudeilunni árið 1962. Hann segir Rússlandsforseta vera fúlasta alvara með hótunum um beitingu kjarnavopna í Úkraínu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti lét þessi orð falla í gær á fjáröflunarsamkomu Demókrataflokksins í New York.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og aðrir ráðamenn hafa óhikað gefið í skyn að þeir kinoki sér ekki við að grípa til kjarnorkuvopna til að verja landsvæði sem þeir álíta að tilheyri Rússlandi.

Pútín er ekki að spauga

„Ég þekki þennan náunga nokkuð vel,“ sagði Biden. Hann gekk svo langt að nota orðið Harmagedón, eða Armageddon úr Abrahamísku trúarbrögðunum, þar sem háð verður hin mikla úrslitaorrusta milli afla góðs og ills við heimsendi.

„Hann er ekkert að spauga þegar hann talar um að grípa til kjarnorkuvopna, nú eða sýkla- eða efnavopna,“ bætti Biden við og sagði ástæðuna vera bágt gengi innrásarhersins.

Bandaríkjaforseti sagði útilokað að beita nokkurskonar kjarnavopni án þess að það kveikti skelfilegt ófriðarbál. Hins vegar kvaðst Biden velta fyrir sér hver útleið Pútíns kunni að vera.

„Hvenær verður staða hans þannig að ekki aðeins bíði hann álitshnekkir heldur verði hann nánast valdalaus?“ 

Biden rifjaði upp söguna

Joe Biden rifjaði upp þegar Níkíta Khrústsjov leiðtogi Sovétríkjanna fékk leyfi til að koma fyrir kjarnorkuflaugum á Kúbu 8. október 1962. Bandaríkjamenn brugðust ókvæða við enda væri þjóðaröryggi ógnað.

Svo fór að lokum að Sovétmenn tóku flaugarnar niður eftir langvinnar samningaviðræður og ógnanir á báða bóga í nóvember en aldrei hefur heimurinn staðið nær kjarnorkustyrjöld en þá.