Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Appelsínugular viðvaranir — ekki ferðaveður á sunnudag

07.10.2022 - 08:58
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Norðanstormur verður á landinu öllu á sunnudag og ferðalög milli landshluta verða óráðleg. Gular veðurviðvaranir sem Veðurstofan hefur gefið út hafa verið uppfærðar í appelsínugular.

„Það er meinlítið veður á laugardaginn en svo versnar það til muna á sunnudaginn. Þá er í kortunum norðanstormur á öllu landinu og auk þess er mikil úrkoma í vændum á Norður- og Austurlandi og það kólnar með þessu þannig að það er líklegt að þessi úrkoma verði í formi slyddu eða snjókomu. Það er ljóst að það verður ekkert ferðaveður á sunnudaginn og líklegt að það verði ófærð. Einnig þarf að huga að því að koma búfénaði í skjól,“ segir Teitur Arason veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Veðurstofan uppfærði í morgun viðvaranir úr gulu í appelsínugult á Norðurlandi vestra, eystra og Austurlandi. Þá hafa bæst við gular viðvaranir á Suður- og Vesturlandi.

- Hvar og hvenær verður veðrið verst? 

„Eins og þetta lítur út núna þá er það verst á Norðurlandi eystra. Þar er hvassast og einnig mesta úrkoman.“

- Þannig fólk á þessu svæði ætti að halda sig innandyra á meðan þetta gengur yfir?

„Já og ferðalög milli landshluta á öllu landinu verða óráðleg.“
 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV