Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sjálfeyðandi drónar sprungu í borg nærri Kyiv

06.10.2022 - 05:45
epa10225454 A school damaged in shelling in Ruski Tyshky village of Kharkiv area, Ukraine, 05 October 2022 amid Russia's military invasion. The Ukrainian army pushed Russian troops from occupied territory in the northeast of the country in a counterattack. Kharkiv and surrounding areas have been the target of heavy shelling since February 2022, when Russian troops entered Ukraine starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/SERGEY KOZLOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússar sprengdu í gær sex sjálfeyðandi dróna í úkraínsku borginni Bila Tserkva um það bil 50 kílómetra sunnan höfuðborgarinnar Kyiv. Rússar virðast hafa brugðist við þungri gagnsókn Úkraínumanna á herteknum svæðum landsins með því að gera atlögur víðsfjarri víglínunni.

Úkraínskir embættismenn staðhæfa að drónarnir séu íranskrar ættar og kallaðir Kamikaze þar sem þeir springa sjálfir.

Bila Tserkva er mörg hundruð kílómetra frá vígstöðvunum norðaustanvert í Úkraínu en tilgangur árásanna virðist óljós. The New York Times fjallar um málið.

Oleksiy Kuleba, yfirmaður hernaðarmála í héraðinu, segir í færslu á samskiptamiðlinum Telegram drónana hafa skaðað innviði án þess að útskýra það frekar.

Frá því að úkraínskar hersveitir tóku í september að hrekja innrásarliðið á brott frá hernumdum svæðum hafa Rússar gert atlögur með langdrægum vopnum að raforkuverum, raflínum og vatnsveitukerfum.

Rússar eru sagðir hafa sent tólf Kamikaze-dróna sunnanvert úr Úkraínu í átt að Kyiv en orrustuflugmenn grönduðu þremur og loftvarnarkerfi skutu niður þrjá til viðbótar.