Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Venstre og Íhaldsmönnum hugnast ekki breiðfylking

05.10.2022 - 21:31
Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX
Leiðtogum Venstre og Íhaldsmanna hugnast ekki hugmyndir Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, um ríkisstjórnarsamstarf flokka bæði á hægri og vinstri væng undir hennar forystu. Hún boðaði til kosninga í dag og þær fara fram 1. nóvember. Kosningabaráttan virðist komin á fullt.

Radikale Venstre höfðu boðað vantrauststillögu á ríkisstjórn Jafnaðarmanna á morgun ef ekki yrði boðað til kosninga. Flokkurinn hafnaði á sínum tíma að þingið kallaði eftir rannsókn á framgöngu stjórnarinnar í minkamálinu og tryggði þar með að ekki væri meirihluti fyrir slíku. Forsætisráðherrann gat því varla annað en boðað til kosninga. Að óbreyttu hefðu þingkosningar verið næst á dagskrá í júní 2023. 

Poulsen og Elleman-Jensen vilja báðir verða forsætisráðherra

„Ég vona að við náum góðum kosningasigri til hægri og íhaldssömum forsætisráðherra, ef allt gengur eftir,“ sagði Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins, í dag eftir að boðað var til kosninga. 

„Ég býð mig fram sem forsætisráðherra Danmerkur í nýrri frjálslyndri ríkisstjórn. Nú er tímabært að koma Jafnaðarmönnum frá völdum eftir þrjú ár af þeirra stefnu,“ sagði Jakob Elleman-Jensen, leiðtogi Venstre. „Við stefnum í ólíkar áttir og ég treysti ekki Mette Frederiksen.“

Frederiksen forsætisráðherra sagði í viðtali í dag að hún sæi fyrir sér samstarf við bæði Venstre og Íhaldsflokkinn, sem eru til hægri og við Radikale Vestre og Sósíalíska þjóðarflokkinn sem eru á vinstri vængnum. 

Radikale Venstre vilja Frederiksen áfram í forystu

Radikale Vestre, flokkurinn sem hratt atburðarásinni af stað, styður hugmynd um breiðfylkingu með ákveðnum skilyrðum, svo sem í umhverfis- og velferðarmálum. „Við útnefnum Mette Frederiksen sem forsætisráðherra í breiðri stjórn sem samanstendur af rauðum og bláum flokkum. Þar sem við aukum kröfur um pólitískar lausnir því ástandið hefur breyst mikið frá 2019. Meira þarf til,“ segir Sofie Carsten Nielson, formaður Radikale Vestre, í dag.

Samkvæmt könnun sem Voxmeter gerði fyrir Ritzau á mánudag er mjög jafnt á milli rauðu og bláu blokkanna. Sú rauða, sem samanstendur af vinstri flokkunum, myndi fá 86 þingsæti af 179. Bláa blokkin, sem í eru hægri flokkarnir, myndi fá 85 sæti.