Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segja öryggissveitir vísvitandi drepa mótmælendur

epa10219773 A Lebanese activist holds a poster depicting deceased Mahsa Amini during a protest organized by feminist groups in support of women protesters in Iran, following Amini's death, outside the Lebanese National Museum in Beirut, Lebanon, 02 October 2022. Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested in Tehran on 13 September by the morality police, a unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women. She fell into a coma while in police custody and was declared dead on 16 September.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íranskar öryggissveitir hafa beitt mótmælendur mikilli hörku í mótmælum undanfarinna vikna og mannréttindasamtök segja sveitirnar vísvitandi skjóta fólk til bana.

Að minnsta kosti 90 liggja í valnum en mótmælin beinast meðal annars gegn hörðum reglum klerkastjórnarinnar um klæðaburð kvenna. Kveikjan að mótmælunum er andlát Mahsa Amini, ungrar kúrdískar konu í höndum siðgæðislögreglu, sem þótti hún ekki bera höfuðslæðu sína rétt.

„Konur eru í fararbroddi hreyfingarinnar, og kúrdískar konur skipulögðu fyrstu mótmælin,“ segir Roya Boroumand, framkvæmdastjóri Abdorrahman Boroumand miðstöðvarinnar í Washington, sem berst fyrir mannréttindum í Íran.

„Öryggissveitir biðu aldrei eftir að mótmæli færu úr böndunum áður en þær hófu skothríð,“ segir Boroumand.

Ung kona ítrekað skotin af stuttu færi

Meðal hinna látnu eru Hadis Najafi, 22 ára kona sem öryggissveitir skutu til bana í mótmælum nærri höfuðborginni Teheran. Skömmu áður hafði hún tekið upp myndskeið þar sem hún kvaðst vonast til að geta stolt litið um öxl að nokkrum árum liðnum vegna þátttöku sinnar í samfélagsbreytingum í Íran.

Systir Najafi segir örlög Amini hafa orðið til þess að hún ákvað að rísa upp og taka þátt í mótmælunum. „Við misstum Hadis, en við óttumst ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir hún.

Talsmenn mannréttindasamtakanna Amnesty International segja liðsmenn öryggissveita hafa skotið Najafi nokkrum sinnum af stuttu færi.

Hún er ein fimm til sjö kvenna sem mannréttindasamtök staðfesta látnar en engin þeirra hafði tekið þátt í nokkru andófi fyrr en nú. Hins vegar hafi þær viljað taka þátt í baráttu sem boðaði fordæmalausa von um breytingar í írönsku samfélagi.