Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gul veðurviðvörun á Norðurlandi vestra fram eftir degi

Mynd með færslu
 Mynd: Markus Spiske - Pexels
Lægðin sem olli talsverðri úrkomu á norðvestanverðu landinu í gær er nú skammt norðaustur af landinu. Á meðan það lægir smám saman á vesturlandi í dag hvessir á austanverðu landinu og gengur þar í allhvassa eða hvassa vestanátt. Á Norðurlandi vestra er gul veðurviðvörun til klukkan þrjú í dag. Gul viðvörun verður fram eftir morgni á Vestfjörðum.

Það mun rigna á láglendi Norðurlands á meðan slyddu eða snjókomu verður vart á heiðum. Í öðrum landshlutum er ekki von á mikilli úrkomu. 

Hiti á landinu verður á bilinu tvö til níu stig, mildast við suðurströndina. Í nótt dregur úr vindi og á morgun snýst vindátt í norður og norðvestur, fimm til þrettán metrar á sekúndu. Áfram mun rigna á Norðurlandi, með slyddu eða snjókomu til fjalla, en sunnanlands verður víða bjart og þurrt veður. 

Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði. Snjóþekja er á Þverárfjalli og hálkublettir á Öxnadalsheiði. Krapi er á Hálfdán en hálkublettir á Þröskuldum. Vegurinn frá Sveinseyri að Lokinhamradal er ófær vegna grjóts og skriðuhlaups. Fjaran undir Skútabjörgum er ófær. 

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV