Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flýgur heim um helgina

Mynd: Úr einkasafni / RÚV
Tekist hefur að safna langleiðina fyrir sjúkraflugi þriggja barna föður á fertugsaldri sem hefur legið þungt haldinn á sjúkrahúsi á Spáni í rúman mánuð. Aðstandendur mannsins segjast afskaplega þakklát.

Sagt var frá máli Gísla Finnssonar í fréttum fyrir helgi. Gísli sem er þrjátíu og fimm ára þriggja barna faðir, hefur legið þungt haldinn á sjúkrahúsi á Spáni í rúman mánuð. Fjölskylda Gísla hefur viljað fá hann fluttan heim en ríkið tekur ekki þátt í niðurgreiðslu sjúkraflugs erlendis frá, jafnvel þó það væri kostnaðarminni valkostur en löng sjúkrahúsdvöl erlendis. Þau hrundu af stað söfnun fyrir fimm dögum síðan og nú hefur safnast langleiðina fyrir sjúkraflugi.

„Hann kemur í lok vikunnar okkur sýnist það bara vera að gerast og við erum bara ótrúlega þakklátar." Segir Elísa Finnsdóttir, systir Gísla.

Hildur Torfadóttir, barnsmóðir hans segist vera orðlaus yfir góðmennsku fólks, söfnunin hafi gengið vonum framar og því sé að þakka að nú sé Gísli væntanlegur heim.

Þær hyggjast halda söfnuninni áfram og safnist hærri upphæð en kostnaðurinn við flutninginn verður, mun sú upphæð renna í sjóð ætluðum sjúkraflutningi Sigurðar Kristinssonar sem er í svipaðri stöðu. Saga hans var sögð í Kastljósi í gær. 

„Og við munum bara aðstoða þær við að finna flugvél því þær fá það ekki hérna á íslandi allavegana og enga aðstoð við að finna vél," segir Elísa.

„Svo við munum reyna að koma honum heim líka," segir Hildur og Elísa tekur undir með henni.

Gangi allt að óskum kemur Gísli heim fyrir lok vikunnar. Mikil vinna fór í að finna öruggan sjúkraflutning á sem bestu verði. Margra milljóna munur var á verðtilboðum sem buðust í verkefnið. 

„Við fjölskyldan erum búin að vera á skrilljón að heyra í sjúkraflugvélum hingað og þangað og það hafðist að frændi okkar sem býr í Noregi hafði samband við vin sinn sem er sem sagt að fljúga sjúkravélum og þannig er þetta bara að gerast." Segir Elísa.

„Þannig að Noregur er að koma til bjargar. Bauð okkur aðeins betra tilboð þannig að þetta er bara að fara að gerast um helgina. Hann er bara að fara að koma heim," segir Hildur.

En hvað tekur við þegar heim er komið?

Frábæra teymið niður á Landspítala tekur á móti honum, hann fer í allsherjarrannsóknir og í kjölfarið ef það gengur vel fer hann vonandi inn á Grensás og svo er þetta bara í okkar höndum.

 

hafdishh's picture
Hafdís Helga Helgadóttir