Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldri kylfingar í ársbann eftir uppnám á Íslandsmóti

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

Eldri kylfingar í ársbann eftir uppnám á Íslandsmóti

05.10.2022 - 18:15
Aganefnd Golfsambands Íslands hefur dæmt þrjá eldri kylfinga í árs leikbann fyrir að hafa sýnt af sér óprúðmannlega og ámælisverða hegðun á Íslandsmóti eldri kylfinga í sumar. Einn þeirra er sagður hafa sýnt formanni mótanefndar og dómara löngutöng þegar þeir óku framhjá honum. Annar þeirra er Margeir Vilhjálmsson, margreyndur kylfingur og golfkennari. Telur aganefndin að gera hafi mátt meiri kröfur til hans.

Uppnám í GR

Margeir, sem er stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur, fór hörðum orðum um atburðarásina í færslu á Facebook í sumar. Þar sagðist hann aldrei hafa kynnst öðrum eins fáránleika á sínum 38 árum í golfi. 

Málið vakti nokkra athygli meðal kylfinga enda er golf fyrst og fremst heiðursmannaíþrótt. Gísli Guðni Hall, lögmaður og formaður GR, sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu eftir að yfirdómari golfklúbbsins sagði starfi sínu lausu til að mótmæla veru Margeirs í stjórninni.

Í yfirlýsingu Gísla kom fram að Gestur Jónsson, nánasti samstarfsmaður hans, hefði skilað greinargerð fyrir hönd Margeirs til aganefndarinnar. „Hann gerir það sem vinur Margeirs og lögmaður,“ sagði í yfirlýsingu Gísla. 

Deilt um nýja reglu sem samþykkt var í apríl

Úrskurður aganefndar er birtur á vef Golfsambands Íslands og er frá 30. september.  Mönnunum þremur var gefið að sök að hafa sniðgengið golfreglur, skilað inn of lágu skori, virt úrskurð dómara mótsins að vettugi og sýnt starfsmönnum mótsins vanvirðingu.

Deilan snýst um breytingu á staðarreglum GSÍ sem samþykkt var í apríl. Þar er kveðið á um að í höggleik sé bannað að slá nein æfingahögg á eða nærri flöt holunnar sem viðkomandi keppandi var að ljúka við að spila. 

Margeir og tveir aðrir kylfingar voru saman í ráshóp á Íslandsmóti eldri kylfinga á Akureyri í sumar. Þegar þeir höfðu lokið leik á 17. holu lögðu hinir kylfingarnir tveir bolta sína á flötina og púttuðu aftur.

Urðu fyrst hissa en síðan reiðir

Dómari mótsins og starfsmaður í mótsstjórn urðu vitni að þessu. Þeir biðu með að ræða við ráshópinn þar til hann var búinn að slá upphafshögg sína á 18. teig en upplýstu síðan kylfingana tvo að æfingapútt þeirra væru brot á reglu. Þeir fengju báðir almennt víti fyrir brotið.

Fram kemur í úrskurði aganefndar að dómari hafi sérstaklega flett upp reglunni í síma sínum.

Í úrskurðinum segir að kylfingarnir tveir hafi fyrst orðið hissa en síðan brugðist illa við. Margeir er sagður hafa blandað sér í málið, spurt dómara hvort ætti að „eltast“ við þetta og látið þau orð falla að þeir „væru alveg úti á túni með þetta.“ Annar keppandi upplýsti jafnframt dómara að aðrir keppendur væru að gera það sama um allan völl og því ætti einnig að refsa þeim. 

Þegar leikmennirnir þrír skiluðu inn skorkorti sínu höfðu vítahöggin ekki verið skráð.  Í úrskurði aganefndarinnar er haft eftir starfsmanni í skormóttöku að mennirnir þrír hafi verið æstir þegar þeir komu inn. Margeir er sagður hafa lýst því yfir að úrskurður dómara væri rugl og að hinir kylfingarnir tveir ættu að hunsa úrskurðinn.

Sagðist hafa hrifist af einhverri stemningu

Dómari mótsins ákvað í framhaldinu að kalla saman fund í mótsstjórn sem tók þá ákvörðun að vísa kylfingunum þremur úr mótinu; tveimur fyrir að skila inn vísvitandi röngu skori og Margeiri fyrir að staðfesta vísvitandi rangt skor.  

Málinu var síður en svo lokið. Strax náðist í einn kylfinginn sem sagðist hafa hrifist með í „einhverri stemningu sem varð til í ráshópnum“. Hann hefði því ekki skráð þessi vítahögg á skorkortið sitt. Viðkomandi kylfingur tók ekki til varna fyrir aganefndinni.

Hinn kylfingurinn var ákaflega ósáttur, vildi ítrekað ræða við mótsstjórn en var tjáð að ákvörðunin um að vísa honum úr mótinu stæði óhögguð. „Síðar sama dag er dómari og starfsmaður mótanefndar voru komnir aftur út á völl í hefðbundið eftirlit með leikhraða og óku fram hjá 18. teig, sáu þeir kærða sitja þar á bekk og þegar þeir óku fram hjá honum hafi hann sýnt þeim löngutöng.“

Í úrskurði aganefndar eru viðbrögð Margeirs síðan rakin.  Hann fékk fund með mótsstjórn þar sem hann kom mótmælum sínum á framfæri og skrifaði síðan harðorða færslu á Facebook þar sem framganga mótsstjórnar var gagnrýnd harðlega.  Er tekið fram í úrskurði aganefndar að Margeir hafi ákveðið að nafngreina sérstaklega alla í mótsstjórninni og merkja inn forseta GSÍ með orðunum „þessi ósómi er á þinni vakt.“

Agabrotið litið alvarlegum augum

Margeir og annar kylfingurinn héldu því meðal annars fram fyrir aganefndinni að ekki væri hægt að ætlast til þess að óvanir kylfingar þekktu allar reglur. Þessu hafnaði aganefndin alfarið. Mennirnir þrír væru allir vanir kylfingar með lága forgjöf.

Nefndin telur að kylfingarnir tveir hafi sýnt af sér óprúðmannlega og ámælisverða hegðun þegar þeir ákváðu sameiginlega að skrá ekki tvö víti á skorkort sitt. Þeir hafi með því haft rangt við með því að hafa úrskurð dómara að engu og þannig sýnt dómara, starfsmönnum og öðrum keppendum vanvirðingu.

Nefndin segir sömuleiðis að sú framkoma annars þeirra að sýna formanni mótanefndar og dómara löngutöng lýsi virðingarleysi við þá sjálfboðaliða sem unnu við mótið.

Nefndin segir um þátt Margeirs að til hans megi gera meiri kröfur um að framkoma hans sé öðrum kylfingum til fyrirmyndar. Hann hafi tekið þátt í fjölda móta á vegum GSÍ, verið meðal bestu kylfinga landsins og sé golfkennari. Hann hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvort skor meðspilara væri rétt skráð ásamt því að birta niðrandi skrif um starfsmenn mótsins á Facebook.  

Aganefndin segist líta málið alvarlegum augum enda hvíli sú skylda á kylfingum að koma ávallt heiðarlega og drengilega fram við keppinauta sína og aðstandendur golfmóta. Agabrot þeirra hafi verið alvarlegt og voru þeir því dæmdir í tólf mánaða leikbanni sem gildir frá 30. september á þessu ári.