Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ástand af völdum flóða versnar í Pakistan

05.10.2022 - 08:15
Mynd: EPA-EFE / EPA-EFE
Sameinuðu þjóðirnar fara fram á rúmlega átta hundruð milljónir dollara vegna neyðarástands í Pakistan af völdum flóða síðastliðið sumar. Stór hluti landsins er enn umflotinn vatni og erfiðleikar íbúanna aukast stöðugt. Fjárhæðin er fimm sinnum hærri en áður var talin þörf á til að koma íbúunum til hjálpar.

Chris Kaye, fulltrúi matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Pakistan, greindi frá því í dag í Islamabad að vegna ástandsins á flóðasvæðunum dygðu ekki 162 milljónir dollara sem óskað hefði verið eftir í sumar. Þörf væri á 816 milljónum dollara.

Akrar breyttust í stöðuvötn

Ófremdarástand hefur varað í landinu frá því að monsúnrigningarnar brustu á um miðjan júní. Um það bil þriðjungur Pakistans er enn umflotinn vatni. Þar sem áður voru blómlegir akrar eru stöðuvötn. Í þeim fjölga moskítóflugur sér hratt og smita fólk af beinbrunasótt eða malaríu. Fyrstu þrjár vikurnar í september voru 140 þúsund malaríutilfelli skráð í Sindh-héraði einu. Húðsjúkdómar hafa skotið upp kollinum, sömu leiðis maurakláði og fleiri sjúkdómar sem flóðin hafa valdið. Flóðin eyðilögðu fjölda heimila og á þriðja þúsund sjúkrahús og heilsugæslustöðvar.

Ástandið er verst í héruðunum Balokistan, Khyber Pakhtunkhwa, Punjab og Sindh. Í síðastnefnda héraðinu eru þrír fjórðu hlutar lands enn undir vatni. Seint í ágúst lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi og óskuðu eftir aðstoð annarra þjóða. Hamfarastofnun landsins áætlar að flóðin hafi orðið 1.695 manns að bana, þar af 630 börnum. Fjöldi slasaðra nálgast þrettán þúsund. Um mánaðamót var áætlað að 96 prósent barna á flóðasvæðunum fengju ekki nóg að borða og að minnsta kosti fjörutíu prósent barna undir fimm ára aldri væru alvarlega vannærð.

Ástandið versnar stöðugt

Að sögn Chris Kaye frá matvælastofnuninni er neyðarástandið komið á annað stig. Heilbrigðisástandið versnar hratt af völdum staðins vatns og fólk sem hrakist hefur að heiman býr við ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sagðist í síðasta mánuði hafa alvarlega áhyggjur af því að nýjar hörmungar væru að dynja á Pakistönum. "Bylgja sjúkdóma og dauða í kjölfar fyrri hamfara sem tengjast loftslagsbreytingum og komu milljónum á vonarvöl," sagði hann og bætti við: "Vatnsveitur eru ónýtar og vatnsból spillt, svo fólk neyðist til að drekka hættulegt vatn. En ef við bregðumst skjótt við og komum nauðsynlegum hreinlætis- og sjúkragögnum til þeirra getum við dregið verulega úr hættunni," sagði forstjórinn og hvatti þjóðir heims til að leggja sitt af mörkum til að afstýra yfirvofandi hörmungum."

Utanaðkomandi vandi

Bilawal Bhutto Zardari, utanríkisráðherra Pakistans, gerði fréttamönnum í New York grein fyrir ástandinu heima fyrir þegar hann sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði að Pakistanar sjálfir hefðu ekki skapað það neyðarástand sem ríkir í landinu vegna flóða. Kolefnismengun þjóðarinnar næmi aðseins 0,8 prósentum af menguninni á heimsvísu. Þrátt fyrir það er Pakistan að hans sögn í hópi þeirra tíu þjóða heimsins sem verða verst úti vegna ástandsins í loftslagsmálum.

„Það eru ekki íbúar þorpanna Dadu, Qambar, Shahdadkot, Nasirabad, D.G. Khan eða D.I. Khan sem valda hlýnun jarðar, en 33 milljónir Pakistana þurfa að gjalda fyrir iðnvæðingu stóru ríkjanna með lífi sínu og lífsviðurværi,“ sagði Zardari.

Loftslagsráðstefna framundan

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP 27, verður haldin í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í næsta mánuði. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri samtakanna, segir brýna nauðsyn að grípa til skjótra aðgerða þrátt fyrir ástandið af völdum innrásar Rússa í Úkraínu.

„Þriðjungur Pakistans er umflotinn vatni,“ sagði Antonio Guterres. „Sumarið í Evrópu var hið heitasta í fimm hundruð ár, fellibyljir berja á Filippseyjum, öll Kúba er rafmagnslaus og í Bandaríkjunum hefur fellibylurinn Ian minnt okkur á að ekkert land eða efnahagskerfi er ónæmt fyrir loftslagskrísunni.“