Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pólsk stjórnvöld krefja Þjóðverja um stríðsskaðabætur

04.10.2022 - 18:04
epa08292979 Polish Prime Minister Mateusz Morawiecki speaks during a press conference on the coronavirus in Warsaw, Poland, 13 March 2020. Morawiecki has announced introduction state of epidemiological threat. The Polish borders will be closed for 10 days, restaurants and pubs for 14 days.  EPA-EFE/PIOTR NOWAK POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Stjórnvöld í Póllandi hafa formlega krafið þýska ríkið um greiðslu 1300 milljarða bandaríkjadala stríðsskaðabóta vegna afleiðinga hernáms Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni.

Pólska stjórnin segir að hörmungarnar hafi aldrei verið bættar að fullu og viðurkennir ekki gildi samkomulags sem kommúnistastjórnin í landinu gerði við Þjóðverja árið 1953 um greiðslu stríðsskaðabóta, og kennt er við Potsdam.

Þar undirgengust Austur- og Vestur-Þýskaland íþyngjandi kröfur bandamanna um stríðsskaðabætur, en jafnframt var kveðið á um að með því væri málinu lokið.

Pólska ríkið afsalaði sér þar stríðsskaðabótum að undanskildum bótum til einstaklinga fyrir „kúgun og grimmdarverk“ nasista, en fékk þess í stað tæpan fjórðung þess svæðis sem áður hafði tilheyrt Weimar-lýðveldinu þýska.

Pólska stjórnin segir kommúnistana, leppstjórn Sovétmanna, ekki hafa haft neitt umboð til slíkrar samningagerðar, en Þjóðverjar hafna hins vegar öllum kröfum og segja þessi mál löngu uppgerð.

Stjórnmálaskýrendur eru flestir á því að pólska stjórnin setji kröfuna ekki fram af neinni alvöru heldur sé hún ætluð til heimabrúks. Pólski stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti hefur gert út á að stilla sér upp andspænis Þjóðverjum í von um að það tryggi flokknum vinsældir.

Sjötíu og sjö ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar, en innan við milljón Þjóðverjar, um 1,2% íbúa landsins, höfðu náð fermingaraldri þegar því lauk. Má því segja að bótakrafan sé fyrir verk fólks, sem fæst er á lífi, vegna þjáninga fólks sem ekki er heldur á lífi.

Syndir feðranna hafa þó fylgt Þjóðverjum lengur. Árið 1972 greiddi Vestur-Þýskaland bætur til Pólverja sem höfðu verið þvingaðir í skottulækningatilraunir í fangabúðum nasista og árið 1975 greiddu þeir 1,3 milljarða þýskra marka (600 milljónir evra, ekki á raunvirði) til Pólverja sem höfðu greitt í þýska almannatryggingakerfið á tímum hernámsins, án þess að fá greitt úr því.

Þá hafa Þjóðverjar og Austurríkismenn greitt bætur til þolenda þvingunarvinnu, munaðarleysingja og fleiri.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV