Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Órói á mörkuðum vegna yfirvofandi gjaldþrots risabanka

04.10.2022 - 11:13
epa05932683 Greenpeace activist protest during the Credit Suisse (CS) general assembly against pipline deals, at the Hallenstadion in Zurich, Switzerland, 28 April 2017. The meeting was target of Greenpeace environment protection activists who brought a pipeline tube with them to protest what they call 'dirty pipeline deals' of the bank.  EPA/ENNIO LEANZA
 Mynd: EPA
Staða svissneska bankans Credit Suisse hefur valdið óróa á fjármálamörkuðum. Hlutabréfaverð í bankanum hefur hríðlækkað síðustu misseri og bankinn áformar fjöldauppsagnir. Greinendum þykir atburðarásin minna óþægilega á aðdragandann að hruni Lehman Brothers árið 2008.

Röð uppljóstrana og vandræðamála hefur reynst bankanum þungbær. Síðasta haust greiddi bankinn hálfa milljón dollara í sekt vegna spillingarmáls sem tengdist mósambíska ríkinu.

Í febrúar varð hann fyrsti bankinn í svissneskri sögu til að sæta ákærum í tengslum við peningaþvætti eftir að hafa hjálpað búlgörsku mafíunni að þvætta kókaínhagnað — og fyrir það var bankinn dæmdur í júlí.

Og í sama mánuði var gögnum um 30.000 leynireikninga í bankanum lekið en þau sýndu að fjölmargir viðskiptavinir bankans hefðu fengið að halda reikningum sínum opnum með illa fengnu fé, jafnvel þótt þeir hefðu verið fangelsaðir og eigur þeirra átt að heita frystar.

Bandamenn Hosni Mubarak, kardínálar sem sæta ákærum fyrir fjárdrátt og fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu sem Sameinuðu þjóðirnar segja hafa stolið milljörðum úr ríkissjóði. Allir geymdu þeir fúlgur í svissneska bankanum. Hálft ár er síðan forstjóri bankans varð að segja af sér fyrir að hafa í tvígang gerst brotlegur við covid-reglur.

Þegar vinirnir hverfa getur verið stutt eftir

Credit Suisse var stofnaður árið 1856 til að fjármagna uppbyggingu svissneska lestarkerfisins. Síðan hefur hann vaxið ógurlega, er einn stærsti banki heims, með skrifstofur um allan heim og alþjóðlega stöðugleikaráðið metur bankann kerfislega mikilvægan fyrir heimshagkerfið. Bankinn er þekktur fyrir trúnað í samskiptum við viðskiptavini og að taka svissnesku bankaleyndina háalvarlega - eins og dæmin hér að ofan sanna.

Hann var einn þeirra heimsbanka sem komst hvað klakklausast úr efnahagshruninu árið 2008, en nú er staðan önnur. Á einu ári hefur hlutabréfaverð í bankanum lækkað um nær sextíu prósent og greinendur óttast að hann sé að hruni kominn, einkum eftir að fregnir bárust af því að bankinn áformaði að segja upp 5.000 starfsmönnum.

„Eins og gengið er á bankanum í dag er markaðsvirðið svo lágt miðað við skráð innra virði að annaðhvort er þetta frábært fjárfestingartækifæri eða þetta endurspeglar það að fjárfestar telji góðar líkur á því að bankinn sé að fara í þrot,“ segir Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum í HÍ. 

Hann segir erfitt að segja til um hvort það verði raunin. Það geti til að mynda ráðist af því hvort ríkið sé til í að hlaupa undir bagga með bankanum. „En það getur verið erfiðara [fyrir ríkið] að styðja við banka sem er greinilega með nokkuð langa sögu af því að stunda bankaviðskipti sem ættu ekki að eiga sér stað.“

Þegar bankar eru orðnir svona valtir getur dregið til tíðinda með skömmum fyrirvara, segir Már. „Á síðustu metrunum geta hlutir stigmagnast hratt. Það er þekkt saga í fjármálasögunni að þegar þú átt enga vini lengur þá hverfur skammtímafjármögnun og þegar þú getur ekki fjármagnað starfsemina lengur þá ferðu mjög fljótt í þrot.“ Bankinn Bear Stearns sem fór í þrot vorið 2008 sé gott dæmi um það.

Staðan önnur en árið 2008

Staða bankans hefur valdið óróa á evrópskum fjármálamörkuðum. Í Danmörku hefur hlutabréfavísitalan lækkað um tæp tíu prósent á einum mánuði og síðustu vikuna hefur skuldatryggingarálag hækkað um fimmtán prósent. Skuldatryggingarálag mælir kostnað fjárfesta við að kaupa sér tryggingu gegn hruni banka.

Á Íslandi hefur gengi bréfa í viðskiptabönkunum Arion banka, Íslandsbanki og fjárfestingarbankanum Kviku lækkað um á bilinu 12-18 prósent á þremur vikum, þótt tölurnar séu að vísu grænar í dag, þriðjudag, í fyrsta sinn í nokkurn tíma.

Staðan hefur vakið upp óþægilegar minningar um aðdragandann að falli bandaríska bankans Lehman Brothers haustið 2008, sem hratt af stað heimshruni.

Er hugsanlegt að fall Credit Suisse geti leitt af sér svipaðar hremmingar?

„Það er hugsanlegt, já - en ekki líklegt,“ segir Már. Hann segir umhverfi bankastarfsemi gjörólíkt því sem var á fyrstu árum aldarinnar. Bankar hafi verið verr fjármagnaðir, kröfur um eigið fé hafi verið hertar til muna og almennt sé meiri varfærni í starfsemi þeirra. Þá veiti efnahagsreikningar banka betri mynd á stöðu þeirra nú. „Vissulega verða dómínó-áhrifin einhver þó.“

Bankastarfsemi hefur að sögn Más verið að færast meira inn á fasteignamarkað og lántöku honum tengdum. „Það væri frekar einhver mikil niðursveifla í húsnæðislánum sem gæti valdið dómínó-áhrifum frekar en að einhver stór banki lendi í vandræðum.“

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV