Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íbúar kannast við ógnandi hegðun fólksins

04.10.2022 - 20:20
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Fólkið sem tengist manndrápsmálinu í Ólafsfirði aðfaranótt mánudags á sér sögu hjá lögreglu og íbúar kannast við ógnandi hegðun af þeirra hálfu. Þrjú eru í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði vegna málsins.

Íbúar í Ólafsfirði sem rætt hafa við fréttastofu segja að fólkið hafi verið í töluverðri óreglu um hríð. Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn segist ekki geta veitt neinar upplýsingar um hvort öll þau sem í gæsluvarðhaldi sitja séu grunuð um að hafa átt þátt í bana þess sem lést. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ekki enn búið að ræða við hin grunuðu. Klukkutímana eftir morðið í gær þótti fólkið ekki viðræðuhæft. Upplýsingar fréttastofu benda til þess að mikilvægt hafi þótt að fá fólkið allt úrskurðað í gæsluvarðhald , til þess að hægt væri að taka skýrslur af þeim allsgáðum án þess að þau hefðu tækifæri til þess að samræma framburð sinn í millitíðinni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru minnst fjórir staddir í íbúðinni við Ólafsveg í Ólafsfirði, hinn látni, kona hans og annað par, aðfaranótt mánudags.

Lögregla var kölluð á vettvang þá á þriðja tímanum, en þá voru tveir særðir í íbúðinni, einn maður og ein kona. Endurlífgunartilraunir á manninum báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum og banamein hans sagt vera áverkar eftir eggvopn.

Konan sem einnig hlaut áverka þessa nótt var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Fjórir voru handteknir vegna málsins í gær en einum þeirra sleppt skömmu síðar.