Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fordæmalaus mótmæli íranskra skólastúlkna

04.10.2022 - 16:32
epa10219889 A pile of hair cut by Iranian women and a rose during a protest following the death of Iranian Mahsa Amini, in Istanbul, Turkey, 02 October 2022. Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested in Tehran on 13 September by the police unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women. She fell into a coma while in police custody and was declared dead on 16 September.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Skólastúlkur víða í Íran létu til sín taka í mótmælum gegn stjórnvöldum í ríkinu. Þær tóku af sér höfuðslæður sínar og hrópuðu slagorð gegn klerkastjórninni, samkvæmt myndböndum sem birtust á samfélagsmiðlum. Slagorðin eru þau sömu og aðrir mótmælendur í landinu hafa hrópað síðan mótmælaaldan hófst um miðjan september.

BBC segir það algjörlega án fordæma að skólastúlkur taki þátt í mótmælum á borð við þessi. Myndbönd frá borginni Karaj sýna stúlkur hópast að embættismanni og segja honum að skammast sín. Í öðru myndbandi hrópa stúlkurnar að ef þær standi ekki saman, eigi yfirvöld eftir að taka þær af lífi hverja af annarri. Í borginni Shiraz lokuðu skólastúlkur fyrir umferð á einni af stofnbrautum borgarinnar, veifuðu höfuðslæðum sínum yfir höfði sér og hrópuðu ókvæðisorð gegn erkiklerknum Ali Khamenei.

Þá hefur BBC einnig veður af mótmælum í höfuðborginni Teheran, og í Saqez og Sanandaj.

Áður en stúlkurnar létu til sín taka hélt erkiklerkurinn ræðu við útskrift lögreglu- og hermanna í Teheran. Þar sagði hann mótmælin skipulögð af óvinum Írans, Bandaríkjunum og Ísrael, og hvatti öryggissveitir til þess að halda ákveðnum aðgerðum sínum gegn mótmælendum áfram.
Mótmælin hófust í síðasta mánuði eftir andlát hinnar 22 ára gömlu Mahsa Amini. Hún var handtekin af siðgæðislögreglunni þann 13. september fyrir að bera höfuðslæðu sína ekki nægilega vel yfir hárinu. Hún var flutt á sjúkrahús eftir handtökuna, þar sem hún lá í dái í þrjá daga áður en hún lést.