Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eins hleðslutæki fyrir öll snjalltæki árið 2024

04.10.2022 - 15:45
epa10000419 An Iphone with USB-C cable, at the European Parliament in Strasbourg, France, 07 June 2022. The EU have reached an agreement on legislation that will force all future smartphones sold in the EU including Apple's iPhone to be equipped with the USB-C port for wired charging by fall 2024.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
 Mynd: EPA
Frá og með ársbyrjun 2024 verða allir snjallsímar og spjaldtölvur sem seldar eru í ríkjum Evrópusambandsins að geta notað USB-C hleðslutæki, þeirra á meðal snjalltæki Apple. Fartölvuframleiðendur hafa tíma til ársbyrjunar 2026 til þess að aðlagast. Reglugerðin verður líklega tekin upp hér á landi í gegnum EES samninginn.

Þetta var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á þingi Evrópusambandsins, 602 greiddu atkvæði með tillögunni og aðeins 13 á móti. Búist er við því að aðildarríkin staðfesti tillöguna fyrir 24. október, og verður hún þá samþykkt sem lög frá þinginu.

Apple hefur sett sig upp á móti þessari tillögu. Fulltrúi fyrirtækisins sagði í samtali við BBC í fyrra að strangar reglur um hleðslutæki séu frekar til þess fallnar að hefta nýsköpun frekar en að hvetja til hennar. Evrópskir neytendur eiga eftir að finna fyrir neikvæðum áhrifum þessa, að sögn fulltrúa Apple.

Nýju reglurnar ná yfir stóran hluta smárra og meðalstórra þráðlausra raftækja. Til dæmis heyrnartóla, stafrænna myndavéla, hátalara og GPS tækja.

Samkvæmt upplýsingum frá sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi er líklegt að reglugerðin verði tekin upp hér á landi. Þetta er breyting á eldri reglugerð sem þegar er í EES samningnum. Skrifstofa EFTA í Brussel tekur málið fyrir eftir að lögin verða samþykkt af Evrópusambandinu. Vinnu- og sérfræðingahópar EFTA leggja svo mat á það hvort lögin falla undir gildissvið EES samningsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV