Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Alvöru mál að vera með hund innan um fé“

04.10.2022 - 10:52
Innlent · Náttúra · Dýr · Dýrbítar · Hundar · Lamb
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bóndi á Vesturlandi segir nauðsynlegt að taka lausagöngu hunda fastari tökum. Of algengt sé að fé hans drepist eftir að hafa lent í hundum. 

Aukin umferð hunda og hundaeigenda um jarðir

Haraldur Benediktsson, bóndi og alþingismaður, segir að hann hafi ekki lengur yfirráð yfir stórum hluta jarðar sinnar vegna aukinnar umferðar hundaeigenda og lausagöngu hunda.

„Ég er ekki að gera athugasemdir við að fólk fari að viðra hundana sína en það verður þá líka að gæta að þeim því að ég er að glíma við það að fólk fer inn á heimalönd sem eru afgirt og við erum að geyma okkar fé og telur það allt í lagi að leyfa hundunum að hlaupa í fénu og nýlegt dæmi um það þá fara stórir hundar og drepa lamb. Þetta er alvöru mál að vera með hund innan um fé.“

Vitundarvakning meðal hundaeigenda nauðsynleg

Haraldur segir viðbrögð hundaeigenda einkennast af skeytingarleysi: „þetta er nú kannski af einhverjum hluta okkar þjóðareðli að telja sig mega allt en bara grunnatriði er þetta, þú ert með hund, hann getur verið hættulegur, hann getur verið óútreiknanlegur og þú verður að hafa fulla stjórn á þínum hund því þú berð ábyrgðina á honum.“

Hann segir þörf á vitundarvakningu meðal hundaeigenda um hver ábyrgð þeirra sé og hvernig virða þurfi aðstæður annarra. Hann vonar að ekki þurfi að koma til refsiaðgerða.