Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það truflar okkur að Gerlach sé svona þekktur“

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
„Það er eitt sem pirrar mig dálítið,“ segir Dietrich Becker, sendiherra Þýskalands á Íslands. Og það er áhugi Íslendinga á Werner Gerlack, sem var ræðismaður hér á landi og Bretar handtóku þegar þeir hernámu landið í maí 1940. „Hann virðist vera mjög frægur en ætti að vera alræmdur því hann var fulltrúi nasistastjórnarinnar. Það truflar okkur að hann sé svona þekktur,“ segir Becker.

Becker var viðstaddur hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í dag þegar íslensk stjórnvöld afhentu þýska þjóðskjalasafninu gögn sem hér hafa varðveist úr ræðismannsskrifstofunni fram að hernámi Breta. 

Becker fagnar því að Íslendingar hafi ákveðið að afhenda skjölin. Það sé mikilvægt að bæði löndin séu áfram um að koma skjölum til réttra þjóðskjalasafna. 

Becker segir Íslendinga oft spyrja sig út í herra Gerlach, „sem var fulltrúi annars Þýskalands, Þýskaland nasismans.“

„Mér finnst að við ættum núna að horfa til framtíðar. Við erum tvö ríki sem vinnum saman með vestrænum bandamönnum okkar. Við aðhyllumst lýðræði og sannleikann um söguna sem er að finna þjóðskjölum. Þess vegna lítum við til framtíðar. Ef þú horfir á húsið við Túngötu 18 þar sem Gerlach bjó, þá sérðu nokkuð sem er táknrænt. Þar er ekki lengur hakakross heldur er þar tákn um samstöðu okkar með Úkraínu. Við berjumst saman fyrir lýðræði, friði og frelsi. Og þess vegna er húsið núna tákn um samstöðu okkar með Úkraínu gegn öðru einræðisríki,“ segir Becker. 

Þjóðskjalasafnið afhenti í dag fimm öskjur af skjölum sem Bretar tóku úr ræðismannsskrifstofu Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni. Þar er að finna bókhald skrifstofunnar, ljósmynd af foringjanum og kvittanir ræðismannsins fyrir kaupum á uppáhaldsblómi Hitlers á afmælisdaginn hans 1940. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Fyrir alla muni - RÚV

Um fjögur hundruð Bretar stigu hér á land í árla einn morgun í maí fyrir 82 árum.  Þegar Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 var eitt þeirra fyrsta verk að koma að Túngötu 18, ræðismannsskrifstofu Þýskalands. Þar tók á móti þeim Werner Gerlach ræðismaður. Þeir fundu fljótt brunalykt og kom í ljós að Gerlach og félagar hans voru að brenna mikilvæg skjöl í baðkarinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Fyrir alla muni - RÚV

Bretar handtóku Gerlach og tóku skjöl með sér úr landi þegar þeir fóru en eitthvað varð eftir af pappírum hér. Meðal þess sem er að finna í skjölunum er merki þýsku ræðismannsskrifstofunnar í Reykjavík með hakakrossinum. Þá er það kvittun fyrir blómakaupum.

„Hér hefur ræðismaðurinn keypt hortensíu. 20. apríl var afmælisdagur foringjans og uppáhaldsblómið hans var hortensía,“ segir Njörður Sigurðsson, aðstoðarþjóðskjalavörður. Á kvittuninni stendur skrifað: „Fuhrer geburtstag feier - haldið upp á afmælisdag foringjans.“

Gerlach hafði oftsinnis samband við íslensk stjórnvöld í það rétt rúma ár sem hann starfaði hér.

„Hann var ekkert sérstaklega hrifinn af Íslendingum og þótti þeim hafa heldur hringnað þessari menningu sem Þjóðverjar horfðu nokkuð til á sínum tíma. Hann var auðvitað sendur hingað til lands í apríl 1939 til að sporna gegn andþýskum áróðri,“ segir Njörður.

Íslenskir ráðamenn urðu sumir þreyttir á ræðismanninum og uppnefndu hann Geirlák og þann kúpta svo hann myndi ekki skilja þegar þeir töluðu um hann. Í dag afhenti þjóðskjalavörður þýskum starfsbróður sínum svo skjölin. Þetta er í fyrsta skipti frá 1928 sem Ísland afhendir erlendu ríki skjöl. 

„Mér finnst þetta vera vitnisburður um það hversu mikilvæg alþjóðleg samvinna er. Líka þegar við erum stödd á þeim tímum sem við erum núna þar sem geysar stríð í Evrópu og áskoranir eru gríðarstórar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

 

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV