Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stunginn til bana með eggvopni í Ólafsfirði

Mynd: RÚV / RÚV
Fjórir eru í haldi lögreglu eftir að karlmaður fannst látinn í heimahúsi í Ólafsfirði í nótt. Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi verið stunginn með eggvopni, en hann var gestkomandi í húsinu.

Óskað var eftir lögregluaðstoð á þriðja tímanum í nótt og voru lögreglumenn frá Akureyri og Tröllaskaga ræstir út auk tveggja sérsveitarmanna, lækna og sjúkraflutningafólks. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.

Rannsókn málsins er í höndum lögreglu á Norðurlandi eystra en hún nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla segir engan eftirlýstan vegna málsins og að ákveðið verði síðar í dag hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim handteknu.

Uppfært 10:33 með vísan í tilkynningu lögreglu.
Leiðrétt 11:06. Ranglega var sagt í upphaflegri útgáfu að einn hinna handteknu væri maður sem hafði haft í hótunum við fjölskyldu þess látna. Sá er hins vegar ekki meðal þeirra handteknu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV