Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skutu flugskeyti yfir Japan

03.10.2022 - 23:35
FILE - In this Oct. 10, 2015, file photo, North Korean leader Kim Jong Un salutes at a parade in Pyongyang, North Korea. South Korean and international monitoring agencies reported Friday, Sept. 9, 2016 an earthquake near North Korea's northeastern
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir hertar refsiaðgerðir. Mynd: AP
Löng runa vopnaprófana norðurkóreska hersins hélt áfram í kvöld þegar óþekktu flugskeyti var skotið á loft. Flugskeytinu var beint í austurátt að strönd Japans og var íbúum í tveimur héruðum í norðurhluta landsins gert að leita skjóls. Flugskeytið flaug yfir Japan og hafnaði úti á Kyrrahafi.

Norður-Kórea hefur að undanförnu slegið öll fyrri met sín hvað vopnaprófanir varðar úti fyrir Kóreuskaga. Í síðustu viku skaut norðurkóreski herinn fjórum sinnum skammdrægum flugskeytum á loft.

Skotið í kvöld er talið vera svar norðurkóreska hersins við samhæfðum heræfingum Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjanna. Síðasta föstudag fór fram stór æfing úti fyrir Kóreuskaga þar sem kafbátaárásir norðurkóreska hersins voru settar á svið. Æfingin var sú fyrsta sinnar tegundar í ein fimm ár. 

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, sótti Suður-Kóreu nýlega heim. Í ræðu þar ítrekaði hún einarðan hernaðarlegan stuðning Bandaríkjanna við bandamenn sína í suðrinu.

Forsvarsmenn leyniþjónustustofnana í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu telja að prófanir kjarnorkuvopna norðurkóreska hersins séu yfirvofandi. Talið er að Kim Yong Un einræðisherra velji sér tímann til prófana af kostgæfni, horft er til 16. október þegar landsþing kínverska kommúnistaflokksins fer fram.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV