Mótmælaaldan hófst um miðjan september eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést þremur dögum eftir að hún var handtekin af írönsku siðgæðislögreglunni. Hún slasaðist þegar hún var handtekin, og lá í dái á sjúkrahúsi í þrjá daga áður en hún lést. Henni var gefið að sök að klæðast höfuðslæðu sinni ekki rétt.
Auk þess að krefjast aukins frelsis kvenna hafa mótmælendur óskað þess að allsherjarleiðtoginn deyi.
Khamenei sagði í ræðu við útskrift lögreglu- og hermanna í dag að þjóðin væri harmi slegin vegna andláts Amini. Fólk eigi þó engan rétt á því að stofna öðrum almennum borgurum í hættu, kveikja í kóraninum, fjarlægja höfuðslæður af konum og kveikja í moskum og bílum, hefur BBC eftir honum.
Þá fullyrti hann að Bandaríkin og Ísrael, ásamt öðrum samstarfsríkjum, hafi skipulagt óeirðirnar. Hann hvatti öryggissveitirnar áfram, og sagði þær hafa sætt ranglæti í óeirðunum.
Liðsmenn öryggissveita réðust harkalega gegn mótmælum háskólastúdenta í Teheran í gærkvöld. Stúdentunum tókst að ýta þeim frá sér og læsa hliðum að háskólasvæðinu, en öryggissveitir höfðu hendur í hári nokkurra þeirra. Frekari mótmæli voru boðuð á háskólasvæðinu í dag.
Mannréttindasamtök í Noregi segja minnst 133 látna eftir aðgerðir öryggissveitanna gegn mótmælendum hingað til. Yfirvöld segja fjörutíu látna, þeirra á meðal liðsmenn öryggissveita.