Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Litáar vísa rússneskum erindreka úr landi

03.10.2022 - 15:06
Mynd með færslu
Mantas Adoménas, staðgengill utanríkisráðherra Litáen. Mynd: J. Azanovo - Utanríkisráðuneyti Litáen
Rússneskur erindreki í Litáen hefur verið opinberlega settur út af sakramentinu af hálfu þarlendra stjórnvalda og fær hann fimm daga til þess að yfirgefa landið. Í yfirlýsingu frá litáíska utanríkisráðuneytinu er hann sakaður um að hafa brotið gegn Vínarsáttmálanum um stjórnmálasambönd með ósæmilegum ummælum sínum um mótmæli Litáa gegn stjórn Sovétríkjanna á tíunda áratugnum.

Mantas Adoménas, staðgengill Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháen, segir að erindrekinn, Sergey Ryabokon, hafi sagt að mótmælin hafi verið ólögleg og fólk hafi dáið vegna þess að það ögraði yfirvöldum. Þá sagði Adoménas að Ryabokon hafi einnig átt í virkum samskiptum við einstaklinga sem vinna gegn hagsmunum Litáen.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er einnig mótmælt harðlega þeirri ákvörðun Rússlands að innlima með ólögmætum hætti fjögur héruð í austanverðri Úkraínu; Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia.

Áður sagði að Ryabokon væri sendiherra Rússlands í Litáen og hafa þau mismæli verið leiðrétt. Þá hefur myndinni sem fylgir fréttinni einnig verið breytt ásamt fyrirsögn. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV