Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Framsókn tapar mestu en Sjálfstæðisflokkurinn á uppleið

03.10.2022 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Miðflokkur og Viðreisn bæta við sig fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups. Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um rúm tvö prósentustig. Framsóknarflokkurinn tapar fylgi sem mælist nú fjórum próntustigum minna en í síðustu þingkosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnarflokkurinn sem bætir við sig fylgi. Það mældist 21,8 prósent í síðasta Þjóðarpúlsi í águst en er nú 24,1 prósent. Hinir stjórnarflokkarnir tapa fylgi. Framsóknarflokkurinn fer úr 15,6 prósentum og niður í 13,4 prósent. Flokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn en Vinstri græn sá sjötti stærsti. Fylgið fer úr 8,4 prósentum í 8,2. Stuðningur við stjórnarflokkana en sá sami og síðast, 46 prósent en 49 prósent þeirra sem tóku þátt segjast styðja ríkisstjórnina. Samfylkingin er næst stærsti flokkurinn með 16,3 prósenta fylgi en það var 15,5 í ágúst. Píratar tapa rúmu prósentustigi, mælast með 13,6 prósent. Fylgi Viðreisnar stendur nánast í stað, 8,5 prósent, Miðflokkurinn bætir sig tæpu prósentustigi og fær 5,4 prósent. Flokkur fólksins tapar fylgi og rekur lestina ásamt Sósíalistaflokknum, en fylgi beggja mælist 5,1 prósent. 

Könnunin var gerð dagana fyrsta september til annars október. Rúmlega ellefu þúsund úr viðhorfahópi Gallups voru í úrtaki en þátttökuhlutfall var 48,3 prósent. Ríflega tólf prósent tóku ekki afstöðu og nær ellefu prósent segjast ekki kjósa eða myndu skila auðu.