Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjögur dóu, 29 hurfu í hafið og einn lifði af

epa10195047 Migrants are attended by medical staff as they arrive to Arrecife, Lanzarote, Canary Islands, Spain, 20 September 2022. A group of 25 migrants were rescued at sea by maritime rescue services.  EPA-EFE/Ardiel Perdomo
Um 11.500 flóttamenn og förufólk hafa komist sjóleiðina frá Afríku til Kanaríeyja á þessu ári, þar á meðal þetta fólk, sem spænska strandgæslan bjargaði af manndrápsfleyi og flutti til hafnar á eyjunni Lanzarote 20. september 2022 Mynd: epa
Fjögur létust, tuttugu og níu hurfu og eru talin af en einn hélt með naumindum lífi þegar 34 manneskjur freistuðu þess að sigla á gúmbát til Kanaríeyja frá strönd Vestur Sahara á dögunum. Spænska strandgæslan fann bátinn á laugardag viku eftir ábendingu frá áhöfn flutningaskips, sem hafði séð hann á reki um 300 kílómetra suður af Gran Canaria.

Aðeins einn maður var á lífi í bátnum, var langt leiddur af ofkælingu. Hin fjögur sem voru um borð reyndust öll látin, samkvæmt frétt  sjónvarpsstöðvarinnar RTVC á Kanaríeyjum á sunnudag.

Einn örmagna maður og fjögur lík

Hjálparsamtökin Caminando Fronteras greindu frá því á Twitter að þau hefðu numið neyðarkall frá bátnum hinn 24. september, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að honum var siglt frá Vestur Sahara í norðanverðri Afríku.

Við tók vikulöng þögn þar til báturinn fannst „með einn gjörsamlega örmagna 26 ára gamlan mann og fjögur lík um borð,“ segir í færslu Helenu Maleno hjá Caminando Fronteras.

Hún hefur eftir unga manninum að 34 manneskjur frá ýmsum löndum sunnan Sahara hafi verið í bátnum þegar honum var ýtt úr vör. „Hafið gleypti hin 29,“ skrifar Maleno, sem segir þetta „enn einn harmleikinn á einni hættulegustu leið flótta- og förufólks“ milli Afríku og Kanaríeyja.

Þúsundir hætta lífinu í von um að komast til Evrópu

Um 11.500 manns hafa komist sjóleiðina frá Afríku til Kanaríeyja það sem af er þessu ári, að sögn spænskra yfirvalda og minnst 978 hafa farist á þessari sömu leið, samkvæmt upplýsingum Caminando Fronteras. Miklir og hættulegir straumar eru á þessari leið og bátarnir sem fólkinu bjóðast iðulega hvort tveggja laklegir og yfirfullir.