Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úrslit í Búlgaríu ólíkleg til að tryggja stöðugleika

02.10.2022 - 23:42
epa10219009 Boyko Borissov, leader of GERB party, cast his vote at a polling station during the country's parliamentary elections in Sofia, Bulgaria, 02 October 2022. Bulgaria is holding its fourth parliamentary elections in 18 months, which do not promise a way out of the political impasse in which the country has been facing since the spring of last year.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
GERB, flokkur Boykos Borisovs, fyrrverandi forsætisráðherra Búlgaríu, hlaut flest atkvæði í þingkosningunum sem haldnar voru þar í landi á sunnudag. Af útgönguspám og fyrstu tölum fékk flokkurinn 23 - 25 prósent greiddra atkvæða í fjórðu þingkosningunum í Búlgaríu á 18 mánuðum. Þetta mun þó tæplega fleyta Borisov aftur í forsætisráðuneytið, þar sem hann hefur setið í þrígang, því fæstir flokkar aðrir vilja vinna með honum eftir að hann hrökklaðist frá völdum vegna spillingarmála.

Miðjuflokkurinn Samstaða undir forystu Kirils Petkovs, núverandi forsætisráðherra, er í öðru sæti með 19 - 20 prósent atkvæða. Það er ríflega þrefalt meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum og fjórum prósentustigum meira en skoðanakannanir höfðu sýnt.

Þriðji stærsti flokkurinn er MRF, flokkur tyrkneska minnihlutans, sem spáð er um 15 prósentum atkvæða. Síðan koma tveir flokkar öfga-þjóðernissinna, Vazrashdane, eða Eindrægni, og Búlgarski framfaraflokkurinn, sem báðir hafa haldið stuðningi sínum við málstað Rússa í Úkraínustríðinu mjög á lofti. þeir fá að líkindum um 15 prósent atkvæða samanlagt.

Ólíklegt að úrslitin auki stöðugleika

Alls voru tuttugu og fjórir stjórnmálaflokkar í framboði og sjö flokkabandalög. Frambjóðendurnir voru alls rúmlega sex þúsund og sex hundruð en þingsætin eru 240. Úrslit kosninganna þykja ekki líkleg til að draga úr þeim óstöðugleika og óvissu sem ríkt hefur í búlgörskum stjórnmálum síðustu misseri.

Sem fyrr segir voru kosningar sunnudagsins fjórðu þingkosningarnar í Búlgaríu á átján mánuðum og er það einsdæmi í sögu landsins. Tveimur þingum sem kosið var til í apríl og júlí í fyrra mistókst að mynda ríkisstjórn og voru leyst upp. Þingið sem kosið var í nóvember í fyrra var einnig skammlíft eftir að vantraust var samþykkt á ríkisstjórn Petkovs. 

Evrópu- og Nató-sinninn Petkov hefur stýrt meirihlutastjórn sem felld var fyrir skemmstu. Hann vonast til að geta myndað nýja samsteypustjórn, og það gerir Borisov líka. Petkov útilokar að starfa með Borisov, en sá segist opinn fyrir samstarfi við hvern sem er.