Stóð uppi fjölskyldulaus, heimilislaus og atvinnulaus 

Mynd: RÚV / RÚV

Stóð uppi fjölskyldulaus, heimilislaus og atvinnulaus 

02.10.2022 - 11:43

Höfundar

Á árunum 2013-14 fékk Gylfi Þór Þorsteinsson sinn skerf af áföllum. Hann missti vinnuna, stóran hluta fjölskyldu sinnar og húsnæðið. Sálfræðingurinn sem hann leitaði til sparkaði honum í gang og hann hefur verið í gangi síðan.

Gylfi Þór Þorsteinsson vakti athygli fyrir skipulag og vinnu við sóttvarnahúsin í kórónuveirufaraldrinum og nú síðast sem aðgerðarstjóri við móttöku flóttamanna. Í þættinum Fram og til baka segir Gylfi Felix Bergssyni frá fimm áföllum sem breyttu lífi hans.

„Ég lagðist í það sem kannski tengist því sem ég hef verið að starfa við undanfarið, áföll, og hvernig maður vinnur sig út úr þeim og hvað þau geta kennt manni,“ segir Gylfi. Þegar fólk lendir í áföllum þykir því oft eins og öll sund séu lokuð en Gylfi segir það alls ekki vera svo. „Það er alltaf von, alltaf einhver leið. Þótt að veröldin sé svört fyrir framan okkur, þá er ljós einhvers staðar.“  

Morð skyggði á fæðingu fyrsta barnsins  

Gylfi var 26 ára og dóttir hans einungis mánaðargömul árið 1996 þegar hann fær þær fregnir að uppeldismóðir hans hafi verið myrt af bróður sínum. Nýbökuðu foreldrarnir stóðu þá frammi fyrir því að gleðin sem felst í því að vera með nýfætt barn eiginlega hvarf. Þetta var þeirra fyrsta barn og fyrsta barnabarn móður hans sem hafði beðið spennt eftir að verða amma.  

„Þegar það verða sakamál þar sem andlát er, þá lifir það miklu lengur en kannski hið almenna andlát, ef svo má að orði komast.“ Réttarhöld og fjölmiðlaumfjöllun geta haldið sárinu opnu árum saman. Gylfi er einkabarn uppeldisforeldra sinna, Sigríðar Eggertsdóttur og Þorsteins Guðlaugssonar, svo þeir feðgar voru að miklu leyti einir á báti þegar kom að því að takast á við missinn. „Eins og fólk þekkir, þegar það kemur að jarðarför þá lítur fólk svo á að þessu sé bara lokið. En í okkar tilfelli var það bara alls ekki og var mjög erfitt.“

Til að takast á við tilfinningar sínar notaði Gylfi húmorinn. „Auðvitað átti ég svolítið erfitt fyrst, mjög erfitt. En svo fór ég að átta mig á því að með húmornum að þá svona lifnaði yfir, ekki bara mér og pabba heldur líka þáverandi konunni minni og þessu litla barni. Og húmorinn kom líka í gegnum hana.“ Hann reyni að hafa það hugfast að fólk sé ekki merkt af þeim áföllum sem það verður fyrir. „Síður en svo, heldur erum við frekar merkt af þeim viðbrögðum sem við sýnum í kjölfarið.“ 

Syni og eiginkonu vart hugað líf 

Næsta áfall kom ári síðar þegar sonur Gylfa fæddist tólf vikum fyrir tímann. Drengnum var vart hugað líf og eiginkona hans var illa haldin eftir fæðinguna. „Þarna gerist það á spítalanum að ég er hlaupandi á milli konunnar minnar sem liggur fárveik og sonar míns sem er annars staðar í húsinu, fárveikur. Og ég veit ekkert hvað er að gerast.“ 

Á spítalanum hafi verið að störfum frábærir læknar og hjúkrunarfólk sem höfðu sig öll við að huga að syni hans og eiginkonu en lítið var skyggnst eftir honum sjálfum. „Eðlilega, þau voru í forgrunni,“ segir Gylfi. „En verandi enn í því áfalli sem maður var óneitanlega í, þá reyndi maður að bíta enn fastar á jaxlinn og halda áfram að hlaupa á milli.“ Hann hafi verið að reyna að afla sér upplýsinga um líðan fjölskyldu sinnar um leið og hann reyndi að hugsa um eins árs dóttur þeirra. „Þetta reyndi mjög á, og aftur, rændi svolítið fæðingu og gleði barnsins.“ Í dag plummar drengurinn sig vel og Gylfi segir að það sjáist ekki á honum að hann sé fyrirburi.  

Þetta hafi sýnt Gylfa að oft gleymast nákomnir aðstandendur eins og í hans tilfelli. Þetta hafi setið lengi í honum. Hann hefur reynt að hafa þetta í huga þegar hann þekkir fólk í erfiðum aðstæðum, að huga einnig að aðstandendum.  

Úr vel launaðri stöðu yfir á atvinnuleysisbætur 

Eftir menntaskóla fór Gylfi beint út á vinnumarkaðinn sem hann taldi hafa beðið lengi eftir sér. „Ég var kominn til að veita svör við öllu og lengi vel, í mörg ár, var ég satt best að segja nokkuð viss um að ég hefði svör við öllu og væri eftirstóttur starfskraftur alls staðar,“ segir hann og hlær. „Það kom nú annað í ljós síðar.“ 

Næstu áföll í lífi hans urðu árin 2013 og 2014 og komu í hálfgerðri kippu. „Það byrjar á því að mér er sagt upp störfum fyrirvaralaust, í starfi sem ég var sannfærður um að ég yrði í til æviloka.“ Hann hafi unnið hjá Morgunblaðinu um nokkurt skeið bæði sem auglýsinga- og markaðsstjóri en á þessum tímapunkti framkvæmdarstjóri mbl.is. „Það var ekki verið að hagræða að öðru leyti en það þurfti að hagræða mér í burtu. Ég fékk svo sem aldrei að vita nákvæmlega hver sú ástæða væri.“  

Hann segir það hafa verið mikið áfall að standa uppi atvinnulaus, sér í lagi rétt eftir hrun sem hann var enn að skríða úr fjárhagslega. „Þetta var svolítið kornið sem fyllti þann mæli. Að fara úr vel launaðri stöðu og yfir í atvinnuleysisbætur.“ 

Stóð uppi fjölskyldulaus, heimilislaus og atvinnulaus 

Á sama tíma og Gylfi var að fóta sig við nýjar aðstæður lýkur hjónabandinu hans og tók það töluverðan tíma fyrir þau bæði að vinna úr þeim málum. „Skilnaður er ekki bara áfall fyrir einn aðila heldur áfall fyrir alla sem að því koma,“ segir hann.  

„Síðan kemur þessi kippa,“ segir Gylfi því á næstu mánuðum dó faðir hans, föðursystir, amma hans og blóðmóðir, þrír hundar sem hann hafði átt og hann missti húsið. „Þarna stóð ég uppi nánast fjölskyldulaus, heimilislaus og atvinnulaus,“ segir hann. „Þá er maður hressilega sleginn niður.“ 

„Hún sparkaði mér í gang og sparkaði mér út“ 

Þrátt fyrir að hafa lært áfallahjálp hjá Rauða krossinum og sinnt því í yfir 10 ár þá segir Gylfi að maður geti ekki alltaf hjálpað sjálfum sér. Hann ákvað því að leita sér aðstoðar og tók upp næstu símaskrá, fletti upp sálfræðingi og valdi sér nafn af algjöru handahófi.  

„Þar var kona sem heitir Ragna, ég fer til hennar og bara skelli á borðið öllum mínum áföllum, bugaður,“ segir hann. „Hún einhvern veginn vorkenndi mér ekki neitt heldur einfaldlega sparkaði mér í gang.“ Sálfræðingurinn setti honum fyrir alls kyns verkefni á borð við að ryksuga heima hjá sér. Hann, sem hafði búist við að fá að leggjast á bekk og gráta, fannst þessi kona hálfklikkuð. 

Gylfi fór til Rögnu tíu sinnum og í síðasta skiptið hafi hún sagt að hann þyrfti ekki lengur að koma til hennar, hann þyrfti bara að fara út og gera eitthvað. „Aftur sparkaði hún mér í gang og sparkaði mér út,“ segir hann. „Þetta var bara algjörlega það sem ég þurfti.“  

Upp frá þessu hefur Gylfi verið í gangi og reynir að vera til taks ef einhver biður hann um aðstoð. „Ég setti mér það markmið að þegar fólk hringir og biður um eitthvað, að segja ekki nei.“ Það fyrsta sem fólk hugsi eru oft afsakanir fyrir að gera ekki eitthvað, en hann reyni að segja bara já. Eins og að stýra farsóttarhúsinu og móttöku flóttamanna.  

Fékk æðisgengið uppeldi 

Gylfi hefur aldrei talið það hafa verið áfall að vera ættleiddur strax við fæðingu. „Um leið og ég kemst til vits og ára er mér sagt að ég hafi verið ættleiddur,“ segir hann og fékk að kynnast blóðmóður sinni um leið. Hún bjó á Akureyri og var ætíð heimsótt þegar fjölskyldan átti þar leið hjá.  

Blóðmóðir hans átti þrjú börn sem voru töluvert eldri en hann sjálfur og vildu þau öll ættleiða hann sjálf. „En kannski sem betur fer, bæði fyrir þau og mig, þá varð það ekki vegna þess að ég fékk æðisgengið uppeldi. Ég er mjög þakklátur fyrir það.“ Honum var aldrei strítt af skólafélögum og fjölskylda uppeldisforeldra hans tóku honum öll opnum örmum. „Í rauninni átti ég bara tvær mömmur og fannst það skrítið að það væri ekki þannig með alla.“ 

„Þú þarft að berjast fyrir þínu“ 

Hann segir það ríkt í hans karakter að sjá alltaf jákvæðu hliðarnar á öllum málum sem má rekja til uppeldis hans og nýtist vel í þeim störfum sem hann hefur valist til. „Þegar allt virðist vera í klessu þá er ég oftar en ekki bara rólegur og yfirvegaður, sé lausnir sem aðrir sjá ekki.“ Hann líti ekki á vandamál sem fyrirstöðu heldur mál sem þurfi að vanda sig með. „Svo líka þykir mér betra að segja fyrirgefðu heldur en má ég. Þannig ég rýk bara af stað og geri það sem mér finnst vera best,“ segir Gylfi. Hann geti þó viðurkennt þegar hann gerir mistök og minnir á að enginn taki rangar ákvarðanir að gamni sínu.  

Faðir hans hafi kennt honum á unga aldri að þrátt fyrir að dramb sé falli næst þá þurfi hann að hafa trú á sjálfum sér. Hann geti ekki búist við að fá eitthvað upp í hendurnar heldur þurfi hann að berjast fyrir sínu. „Það er mjög gott veganesti og síðan þá hef ég verið minn helsti peppari, sumum finnst það kannski fullmikið. En það er bara það sem ég þarf að gera til að takast á við það sem ég er að vinna að hverju sinni.“ 

Rætt var við Gylfa Þór Þorsteinsson í Fram og til baka á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Það sem gerist er að bróðir hennar myrðir hana“