Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grunlaus tónleikagestur fær miða sína ekki endurgreidda

02.10.2022 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: flickr
Kærunefnd vöru-og þjónustukaupa hefur hafnað kröfu manns sem fékk ekki að sækja tónleika í nóvember á síðasta ári því hann framvísaði ekki neikvæðu hraðprófi fyrir COVID-19. Nefndin taldi tónleikagestinn hafa vitað eða mátt vita að hann þyrfti að framvísa slíku prófi. Ekki hefði átt að fara fram hjá neinum þegar samkomutakmarkanir voru hertar aðeins tólf dögum fyrir tónleikana. Auk þess hefði hann fengið skilaboð daginn fyrir tónleikana um að framvísa þyrfti svona prófi.

Maðurinn kvartaði til kærunefndarinnar og krafðist þess að fá endurgreidda tvo miða á tónleika sem hann ætlaði að sækja þann 25. nóvember. Miðarnir tveir kostuðu 11 þúsund krónur.

Hann sagði að hvorki í söluferlinu né á miðunum sjálfum hefði komið fram að honum bæri að framvísa neikvæðu hraðprófi vegna COVID-19. Honum hefðu borist skilaboð daginn fyrir tónleikana þar sem hann hefði verið minntur á viðburðinn.  Skilaboðin hefðu ekki verið þess eðlis að hann hefði talið að í þeim leyndust mikilvægar upplýsingar.  Hann hefði því ekki opnað þau heldur litið á þau sem „hver önnur tilgangslaus fjöldaskilaboð“. 

Þegar hann hefði síðan mætt á tónleikana hefði honum verið vísað frá þar sem hann hefði ekki getað framvísað neikvæðu hraðprófi. Og þegar hann hefði haft samband við tónleikahaldara hefðu þeir hafnað allri ábyrgð og velt henni alfarið yfir á hann.

Kærunefndin segir í úrskurði sínum að þann 13. nóvember hafi samkomutakmarkanir verið hertar hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta hafi verið tíu dögum áður en miðarnir voru keyptir.  Aðeins 50 hafi mátt koma saman en 500 ef notast var við hraðpróf. 

Aðgerðirnar hafi verið kynntar almenningi í flestum fjölmiðlum landsins og almenn vitneskja verið um þær á meðal fólks. Enda hafi þær haft töluverð áhrif á daglegt líf flestra Íslendinga „meðal annars til að sækja tónleika og aðra menningarviðburði.“

Nefndin bendir jafnframt að viðkomandi hafi fengið skilaboð degi fyrir tónleikana með áminningu um að hann þyrfti að framvísa neikvæðu hraðprófi.

Var kröfunni því hafnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV