„Ef lífið verður svona þá er ég tilbúin til að deyja“

epa10211351 Participants attend a rally in front of the Reichstag building in Berlin, Germany, 28 September 2022. Iran has been facing many anti-government protests following the death of Mahsa Amini, a 22-year-old Iranian woman, who was arrested in Tehran on 13 September by the morality police, a unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women and died while in their custody.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Talið er að hátt í eitt hundrað hafi látið lífið í mótmælum í Íran síðustu tvær vikur og mörg hundruð verið handtekin. Konur berjast sem aldrei fyrr fyrir auknum réttindum og hafa fengið sig fullsaddar af kúgun Íransstjórnar. Heimskviður ræddu við íranska konu í Teheran sem hefur tekið þátt í mótmælunum, en vill ekki koma fram undir nafni af ótta við afleiðingarnar. Hún segir að konur hafi fengið sig fullsaddar af 43 árum af kúgun og ætli að steypa stjórninni.

Hún hefur búið í Teheran alla sína ævi en bað mig um að halda nafni sínu leyndu því ef það kæmi í ljós að hún væri að tala við erlenda fjölmiðla um ástandið í Íran og mótmælin yrði hún líklega dæmd fyrir njósnir eða árásir á einræðisstjórnina. Og þetta er veruleiki margra Írana sem vilja vekja athygli á ástandinu í landinu. 

Hún hefur tekið virkan þátt í mótmælunum sem hafa staðið vel á þriðju viku en mótmælt er í borgum og bæjum um nær allt Íran. Þar er fjöldi kvenna, sem er óvenjulegt, en konur og baráttuþrek þeirra og þor er eitt af einkennum þessara mótmæla. Þær hafa brennt slæður sínar og skorið hár sitt og þar með storkað yfirvöldum og áratugagömlum lögum sem segja til um hverju þær eigi að klæðast, hverja þær mega tala við og hvernig þær eigi að haga sér. Þessi lög hafa verið í gildi síðan eftir byltinguna 1979 en ákall verið um breytingar síðustu ár, jafnvel meðal íhaldssamra, sem vilja meina að hörð viðurlög við minnstu brotum geti orðið kveikjan að ósætti og aukinni heift gagnvart stjórnvöldum og ekki síður trúnni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Konur hafa brennt höfuðslæður sínar í fjölda borga í Íran, og þetta hafa mótmælendur í fjölda evrópskra borga tekið upp til að styðja málstað þeirra.

Eiga á hættu að vera handteknar hvar sem er

Og þetta virðist ætla að verða raunin. Kveikjan að þessari mótmælabylgju er andlát Möshu Amini, sem var 22 ára og lést í haldi lögreglu. Hún var handtekin fyrir að bera slæðuna sína á rangan hátt, það sást of mikið í hárið á henni, að mati siðgæðislögreglunnar sem hefur gætt að slíku og öðrum ströngum sjaría- eða siðgæðislögum í Íran síðustu fjóra áratugi. Amini, sem oftast var kölluð Jina, var á ferðalagi með fjölskyldu sinni í höfuðborginni Teheran þegar hópur manna vatt sér upp að henni. Afar sjaldgæft er að liðsmenn siðgæðislögreglunnar séu einkennisklæddir og því engin leið að vita hvenær fylgst er með þér. Konur þurfa því að vera afar varar um sig á almannafæri, því þær eiga á hættu að vera handteknar hvar og hvenær sem er, af minnsta tilefni, eins og dæmin sanna.

Lést eftir barsmíðar lögreglumanna

Í tilfelli Amini var hún á gangi með bróður sínum í miðborg Teheran síðdegis föstudaginn þrettánda september þegar hún var handtekin. Hún var færð í lögreglubíl og talið er að hún hafi verið barin svo illa á leiðinni á lögreglustöðina að hún hafi verið meðvitundarlaus þegar þangað var komið. Lögregla segir hana hafa fengið hjartaáfall en fjölskyldan segir að það geti varla staðist, því hún hafi verið við góða heilsu. Hún lést á sjúkrahúsi og þetta vakti mikla reiði í Íran og mótmæli hófust, sem hafa staðið síðan.

epa10207277 An Iranian man holds a picture of Mahsa Amini during a protest outside the Iranian Consulate following the death of Mahsa Amini, in Istanbul, Turkey, 26 September 2022. Protests have erupted in Iran and across the world after the death of Mahsa Amini who died last week in custody of Iran's morality police.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mahsa Amini var færð í lögreglubíl og talið er að hún hafi verið barin svo illa á leiðinni á lögreglustöðina að hún hafi verið meðvitundarlaus þegar þangað var komið.

Konan sem ég ræddi við í vikunni segir að lögregla hafi frá byrjun tekið á mótmælendum af hörku. „Fólk reiddist mjög og eftir að þetta fréttist hófust mótmælin. Lögregla tók strax á mótmælendum af mikilli hörku, reyndi að tvístra hópnum með táragasi og loftbyssum, sem skjóta málmkúlum sem geta valdið miklum sársauka um allan líkamann, og svo hefur lögregla einnig beitt hefðbundnum byssum,“ segir hún. Þá hafi lögregla einnig beitt táragasi til að tvístra mótmælendum, en talið er að minnst 76 hafi látið lífið frá því mótmælin hófust. Yfirvöld í Íran segja þessa tölu mun lægri, en hafa staðfest að tugir hafi látist, þar á meðal fjöldi lögreglumanna í átökum við mótmælendur.

Vilja steypa stjórninni ekki nýja valdhafa

Hún segir að reiðin hafi kraumað undir niðri í mörg ár. Hver mótmælahreyfingin hefur fylgt annarri síðustu ár, en hlé varð síðustu tvö ár vegna covid. Hún segir að þá hafi skapast fullkomið ástand fyrir stjórnvöld, til að hafa hemil á mótmælum og þeirri óánægju sem grasseraði undir niðri. „Nú vill fólk að einræðisstjórnin fari frá og fólk vill breytt stjórnarfar og steypa stjórninni, ekki bara skipta um valdhafa sem eru þóknanlegir þeim sem nú eru við völd,“ segir konan sem ég ræddi við í vikunni en hún hefur alla tíð verið búsett í Teheran. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hún segir að þeir sem séu skotnir með loftbyssunum hafi fengið sár eftir kúlurnar um allan líkamann og þessu fylgi mikill sársauki.

Það er líklega hvergi tekið harðar á mótmælendum en í Íran og viðbrögð yfirvalda nú sem endranær verið hörð. Þau hófust í heimahéraði Amini og hafa teygt anga sína víða. Þá hefur lögregla einnig handtekið tugi blaða- og fréttamanna sem hafa fjallað um mótmælin og upphaf þeirra, þar á meðal blaðakonuna sem sagði fyrstu fréttir af dauða Amini.

Hafa barið niður mótmæli og gera líklega aftur

Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Miðausturlanda, segir fátt benda til þess að farið verði mýkri höndum um mótmælendur nú en áður. „Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að stjórnvöld eru mjög klók í að bregðast við. Það er búið að loka fyrir internetið og gert kleift að ofbeldið getur nú verið í skjóli nætur. Og nú hafa margir áhyggjur af því hvað er að gerast bakvið tjöldin, af því við höfum mjög litlar upplýsingar um þessi mál. Og forystumenn þjóðarinnar hafa mjög mikla reynslu úr löggæslunni og hafa verið mjög aktívir í að beita ofbeldisfullum aðferðum til að kveða niður svona mótmæli í fortíðinni og ekki ólíklegt að þeir muni beita slíkum tækjum aftur í nútíðinni. Ég veit að stjórnvöld eru ekki að hika við hvort þau setji neyðarlög eða útgöngubann til að koma í veg fyrir að fólk sé að safnast saman með þessum hætti,“ segir Magnús Þorkell. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Miðausturlanda.

Amini var ekki aðeins kona heldur tilheyrir hún líka minnihlutahópi. Hún er Kúrdi, frá borginni Saqiz í Kúrdistan, en meðferð einræðisstjórnarinnar á Kúrdum hefur um árabil sætt mikilli gagnrýni. Þar eru ekki nándar nærri eins strangar siðgæðisreglur og samfélagið mun frjálslyndara en víðast hvar annars staðar í Íran. Talið er að allt að helmingur pólitískra fanga í landinu séu Kúrdar, þó þeir séu aðeins um tíu prósent Írana. Þetta snýst því ekki bara um stöðu kvenna heldur allra minnihlutahópa og um mannréttindi almennt í landinu. Því eru þessi mótmæli öðruvísi en áður hafa sést í Íran, hér er ekki barist fyrir lægra verði á brauði eða nauðsynjum, heldur grundvallarbreytingum á kerfinu sem hefur viðgengist svo lengi og mismunað svo mörgum. 

„Þetta er þvílíkt hetjuleg barátta“

Og nú er komið andlit á þessa baráttu, því dauði Amini hefur ýtt við írönsku samfélagi og sífellt fleiri stíga fram en mótmælin hafa á tveimur vikum dreifst til allra héraða landsins, og verða sífellt kröftugri. Nú er orðræðan mun róttækari en í fyrri mótmælum. Nú eru umbætur ekki nóg. Krafan er skýr, að skipta út kerfinu sem hefur verið við lýði síðan 1979 og steypa stjórninni. „Þessi barátta sem hefur verið háð, þetta er þvílíkt hetjuleg barátta. Þetta er með ólíkindum hvað fólk er að gera til þess eins og mótmæla ákveðnum stefnumálum og kerfinu í Íran. Þessar myndir sem við höfum séð og baráttan sem þau eru að há, þetta er ekki bara simbolískt, það er miklu meira sem hangir þarna á spýtunni, fyrir marga mótmælendur er þetta spurning um líf og dauða og þar af leiðandi er þetta stórmerkilegt sem er að gerast núna í Íran,“ segir Magnús Þorkell. Þar vísar hann meðal annars til þeirra kvenna sem hafa skorið hár sitt á strætum og torgum og brennt slæðurnar sínar, sem er glæpur samkvæmt írönskum lögum og margar þeirra hafa verið handteknar. 

epaselect epa10213316 A protester holds a placard picturing Masha Amini during a demonstration following the death of Mahsa Amini in Iran, at Federation Square in Melbourne, Victoria, Australia, 29 September 2022. Protests have continued to rage in Iran over the death in custody of Mahsa Amini, with demonstrators calling for the end of clerical rule.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Nú er komið andlit á baráttuna, því dauði Amini hefur ýtt við írönsku samfélagi og sífellt fleiri stíga fram og mótmæla og þau verða sífellt kröftugri.

Reglur um klæðaburð kvenna voru settar í Íran 1983 en þeim er skylt að bera höfuðslæðu eða hijab til þess að hylja líkama sinn. Áherslur hafa verið breytilegar eftir því hver er við völd en í forsetatíð Hassans Rouhani, frá 2013 og þar til í fyrra, var slakað nokkuð á reglunum. Síðir lokkar fóru að sjást undan slæðunum, pilsin styttust og litadýrðin jókst, en konur og stúlkur höfðu fram að því að mestu haldið sig við dökkan klæðnað. Síðustu misseri höfðu sumar konur jafnvel gengið enn lengra. Tekið af sér slæðuna á veitingastöðum og víðar opinberlega. Og þá hefur ekki verið samhljómur milli kvenna og ríkisins hvernig hijab eigi að líta út, og hvað hann verði að hylja. Og það er alls ekki þannig að allar konur líti híjabinn sömu augum, því margar þeirra eru alls ekkert ósáttar við að bera hann. 

Kúgunartilburðir jukust til muna í fyrra

Hófsamar stjórnir, eins og til dæmis Rouhanis, höfðu slakað mjög á kröfunum en þó reglulega gert skurk í því að sekta eða handtaka konur sem þóttu ekki bera hijab rétt. Svo þegar núverandi forseti Ebrahim Raisi tók við fyrir ári var hert mjög á reglunum, siðgæðislögreglunni var hleypt lausri og spenna hafði aukist mjög mörgum mánuðum áður en Amini lést. Myndböndum hafði verið dreift á samfélagsmiðlum af lögreglumönnum berja konur fyrir ganga ekki með slæðuna, eigendum kaffihúsa var gert að loka þeim eftir að hafa hleypt stúlkum og konum þar inn án höfuðslæðunnar og kúgunartilburðirnir jukust til muna. 

epa10215529 A veiled Iranian woman attends the Friday prayer ceremony in Tehran, Iran, 30 September 2022. Iranian President Ebrahim Raisi has announced that everything concerning the death of Mahsa Amini, which was felt grief and sorrow for the nation, should be cleared soon by Iranian judiciary.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA

„Konur leiðar á 43 árum af kúgun“

Sú sem ég ræddi við í vikunni segir að nú, eftir rúma fjóra áratugi, séu margar konur að átta sig á raunverulegri þýðingu þess að vera þvingaðar til að bera hijab. „Eftir byltinguna voru reglurnar hertar og konum skylt að bera Hijab. En nú eru konur leiðar á 43 árum af kúgun og samfélagið nú skilur þýðingu Hijab, þetta er ekki bara slæða til að hylja hárið heldur er verið að hlutgera konur og kúga þær. Við megum ekki syngja, ekki taka þátt í íþróttum eins og aðrir og okkur eru alls staðar sett mörk. Núna skilur fólk hvað Hijab táknar og er orðið þreytt á þessu. Konur sætta sig ekki lengur við að vera þvingaðar til að bera hann,“ segir hún. 

Síðasta sort að semja við mótmælendur

Það á eftir að reynast stjórnvöldum erfitt að hunsa kröfur mótmælenda, og líklegast að barátta þeirra verði barin niður eins og oft áður. En þar er mikið undir. Yfirvöld í Íran hafa lengi átt í viðræðum um kjarnorkusamning við Bandaríkin, að þau láti af kjarnorkutilraunum í skiptum fyrir að refsiaðgerðum, sem eru að gera út af við efnahag landsins, verði aflétt. Þau mega því ekki við því að styggja alþjóðasamfélagið, en mörg ríki hafa brugðist við með því að herða á refsiaðgerðum. „Svona mótmæli hafa verið með reglulegu millibili, þetta er einkennandi fyrir stjórnarsögu Írans síðustu áratugi, en núna er þetta svolítið öðruvísi. Íranar að semja núna um kjarnorkusamninginn og það stefnir í að það gæti kannski aftur komið inn á þann vettvang og opnað á íranska hagkerfið og slíkt, þannig að það er spurning hvort að írönsk stjórnvöld eru að halda að sér höndum út af því. En ég held fyrst og fremst að fyrir þeim vaki að sýna að þeir hafi stjórn á landinu og geti stöðvað þessi mótmæli. Hafa aldrei viljað sýnast vera að semja við mótmælendur, töldu það mikinn veikleika hjá keisaranum 1978-9 að bregðast ekki við mótmælunum með ákveðnum hætti og reyna að semja við mótmælendur og núverandi stjórnvöld vilja aldrei fara út í þá sálma,“ segir Magnús Þorkell. 

epaselect epa10211916 Protesters hold placards with a picture of Mahsa Amini during a rally in reaction to her death, in front of the Brandenburg Gate in Berlin, Germany, 28 September 2022. Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested in Tehran on 13 September by the morality police, a unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women. She fell into a coma while in police custody and was declared dead on 16 September.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælendur komu saman við Brandenborgarhliðið í Berlín á miðvikudaginn.

En þó að dauði Mahsu Amini hafi verið kveikjan að mótmælunum og þau hafi í fyrstu beinst að auknum mannréttindum og kröfu stjórnvalda um að konur beri hijab, er ljóst að Íranar ætla ekki að láta þar við sitja, ef svo ólíklega vill til að stjórnin komi til móts við eitthvað af þeirra kröfum. Þeir vilja ekki nýja valdhafa með hófsamari áherslur en forverar þeirra. Þeir vilja nýtt kerfi, nýtt upphaf. Konan sem ég ræddi við í vikunni segir mikið vonleysi í Íran og ekki mikil trú á að breytingar verri, ekki frekar en í öðrum mótmælum síðustu ár. „Ástandið er mun verra núna. Efnahagurinn er á hliðinni, við vinnum allan daginn en fáum ekki laun nema rétt til að lifa af. Við getum ekkert gert. Fólk er að missa heimili sín, það er mikið vonleysi og örvænting. Og svo þessar frumstæðu reglur, að þvinga okkur til að vera með Hijab og valdið sem þeir hafa yfir líkama okkar og öllu okkar lífi. Þetta hefur reitt fólk til reiði, og það hugsar með sér; ef lífið verður svona þá er ég tilbúinn til að deyja. Þessu þarf að ljúka,“ segir hún. 

02.10.2022 - 09:20