Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Búlgaría: Fjórðu þingkosningarnar á 18 mánuðum

02.10.2022 - 04:48
epa10213202 People walk past election posters in Dupnica, Bulgaria, 29 September 2022. The 2022 Bulgarian parliamentary election is scheduled for 02 November.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Búlgarar ganga að kjörborðinu í dag, í fjórðu þingkosningunum á hálfu öðru ári. Úkraínustríðið og afleiðingar þess hafa verið áberandi í kosningabaráttunni, ekki síst vegna hækkandi framfærslukostnaðar og ótta um enn meiri verðhækkanir á mat og orku þegar vetur gengur í garð.

Meiri áhyggjur af verðlagi en spillingu og utanríkispólitík

Í frétt AFP segir að viðvarandi og landlæg spilling hafi verið aðal kosningamálið í síðustu kosningum, sem haldnar voru í nóvember í fyrra. Nú séu það hins vegar efnahagsmálin sem kjósendur hafi mestar áhyggjur af í þessu fátækasta ríki Evrópusambandsins, þar sem verðbólga mælist nú hátt í 20 prósent.

Nýlegar kannanir sýna að margir Búlgarar kvíða vetrinum vegna síhækkandi matar- og orkuverðs. „Kjósendur hafa miklu meiri áhyggjur af verðlaginu en landfræðipólitískum átakalínum sem stjórnmálaflokkarnir eru að þrefa um,“ segir stjórnmálaskýrandinn Antony Todorov í samtali við AFP.

Borisov á siglingu ári eftir að spilling varð honum að falli

Boyko Borisov, sem hefur þrisvar leitt ríkisstjórn í Búlgaríu en hrökklaðist frá völdum í fyrra vegna fjölda spillingarmála lofar kjósendum að finna leið til að „tækla óreiðuna“ og „vinna að stöðugleika í landinu.“

Þetta virðist falla í kramið og sýna skoðanakannanir að Borisov og hægriflokkur hans, GERB, njóta stuðnings um fjórðungs kjósenda.

Núverandi leiðtogi tapar fylgi

Stjórn fráfarandi forsætisráðherra, Kirils Petkovs, sem samanstóð af fjórum flokkum, hrökklaðist frá völdum eftir tæplega sjö mánaða valdatíð, þegar henni tókst ekki að verjast vantrauststillögu sem borin var upp á þinginu.

Petkov biðlar til kjósenda að gefa honum færi á að „halda áfram umbótunum“ sem hann og stjórn hans séu byrjuð að innleiða með það fyrir augum að uppræta landlæga spillinguna í stjórnkerfinu. Einungis 16 prósent kjósenda virðast þó ætla að láta það eftir honum, ef marka má skoðanakannanir.

Flokkur hliðhollur Rússlandsstjórn eykur fylgi sitt

Petkov útilokar samstarf við Borisov eftir kosningar, en Borisov segist opin fyrir öllu. Einn mögulegur samstarfsflokkur hans er öfga-þjóðernisflokkurinn Vazrazhdane, eða Endurvakning.

Sá flokkur fer ekki leynt með stuðning sinn við málstað Rússa í Úkraínustríðinu. Öfugt við það sem gerst hefur víðast hvar annars staðar í Evrópu hefur þetta orðið til þess að fylgi við hann hefur aukist frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar og mælist flokkurinn og annar flokkur á sömu slóðum, Búlgarski framfaraflokkurinn, nú með 11 til 14 prósenta fylgi samanlagt. 

Annar mögulegur samstarfsflokkur er MRF, flokkur tyrkneska minnihlutans, sem spáð er um 15 prósentum atkvæða, en vandséð er að þessar tvær ólíku fylkingar, tyrkneskumælandi Búlgarar og öfga-þjóðernissinnar, nái saman undir forystu Borisovs.