Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Átti að leiðbeina manni sem kvartaði undan kannabislykt

02.10.2022 - 13:25
Úr umfjöllun Kveiks um kannabis.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Kærunefnd húsamála braut lög þegar hún leiðbeindi ekki manni sem kvartaði undan kannabislykt í geymslu sinni. Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis. Nefndinni láðist að láta manninn vita að hann gæti látið kvörtun sína yfir lyktinni til lögreglu fylgja með í gögnum málsins. Það segir umboðsmaður að hafi verið brot á leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Maðurinn leigði íbúð af sveitarfélagi. Skömmu eftir að hann fékk hana afhenta varð hann var við ólykt úr geymslu sem fylgdi íbúðinni. Hann óskaði eftir úrbótum og átti í nokkrum samskiptum við sveitarfélagið. 

Sveitarfélagið sagðist í tvígang hafa reynt að fá aðgang að geymslunni til að kanna ástand hennar.  Íbúinn brá hins vegar á það ráð að fá lögreglu til að koma á staðinn sem staðfesti með bókun að megn kannabislykt væri í geymslunni. 

Íbúinn kærði málið til kærunefndar húsamála. Annars vegar fór hann fram á að sveitarfélagið bætti úr gallanum á geymslunni og hins vegar að hann fengi endurgreidda hlutfallslega þá leigu fyrir þann tíma sem hann hefði ekki getað nýtt geymsluna.

Í kæru sinni til nefndarinnar sagðist hann jafnframt kannast við einn strák sem byggi í stigaganginum. Sá hefði alltaf „verið í ræktun“ og hann hefði hann grunaðan um að vera enn í slíku. 

Kærunefndin sagði í úrskurði sínum að sveitarfélagið hefði lagt fram gögn um að ítrekað og árangurslaust hefði verið reynt að fá aðgang að geymslunni. Maðurinn hefði hins vegar ekki lagt fram nein gögn um þá fullyrðingu sína að lögregla hefði fundið kannabislykt í geymslunni. 

Þar telur umboðsmaður að kærunefndin hafi brugðist hlutverki sínu, því maðurinn væri með skjalfesta bókun frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu um að mikil kannabislykt væri í geymslunni og að hún væri ekki í nærliggjandi geymslum. 

Umboðsmaður telur að nefndin hefði átt að leiðbeina manninum að leggja fram þessa bókun enda hefði hún getað stutt við kröfur hans. Nefndin hafi því ekki farið að lögum og beri að taka málið aftur fyrir, komi fram beiðni um slíkt. Umboðsmaður tekur fram að hann sé með þessu áliti sínu ekki að taka afstöðu í málinu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV