Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Á mjög erfitt með að trúa þessum ásökunum“

Gæsluvarðhald vegna vopnaframleiðslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Verjendur mannanna, sem sætt hafa gæsluvarðhaldi í tengslum við hryðjuverkarannsókn lögreglu, gagnrýna hversu lengi mennirnir séu látnir sæta einangrun. Verjandi annars mannsins segir yfirlýsingar lögreglu á fyrstu stigum málsins gagnrýnisverðar og mjög geyst hafi verið farið í notkun á mjög alvarlegum hugtökum.

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi annars mannsins, segist eiga mjög erfitt með að trúa þeim ásökunum sem bornar séu á skjólstæðing hans.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi og sætt einangrun síðan hann var handtekinn í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Í tilkynningu til fjölmiðla kom fram að mennirnir tveir hefðu verið taldir hættulegir og vopnaðir. Og á blaðamannafundi sem haldinn var daginn eftir voru mennirnir sagðir hafa verið handteknir vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka.

Einar Oddur segir að yfirlýsingar lögreglu á fyrstu stigum málsins séu gagnrýnisverðar. Og hann telur að hún hafi farið mjög geyst í notkun á mjög alvarlegum hugtökum.  

Einar Oddur og Ómar Örn Bjarnþórsson, sem er verjandi hins mannsins, gagnrýna báðir hversu lengi mennirnir hafa sætt einangrun.  Ómar Örn segir í samtali við fréttastofu að hann hafi komið sinni gagnrýni á framfæri, bæði fyrir héraði og þegar gæsluvarðhaldsúrskurðurinn var kærður til Landsréttar.

Hann bendir á að skjólstæðingur sinn hafi verið nýkominn úr vikulöngu gæsluvarðhaldi og einangrun þegar hann var handtekinn vegna þessa máls. „Þessi lengd einangrunar getur haft verulega slæm og jafnvel varanleg áhrif á minn skjólstæðing,“ segir Ómar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV