Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta hefur gífurleg sálræn áhrif á fólk hérna“

01.10.2022 - 15:48
Erlent · Hamfarir · Bandaríkin · Erlent · fellibylur · Fellibylurinn Ian · Flóð · Flórída · Hamfarir · Orlando · Óveður · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Fellibylurinn Ian fór hamförum í Flórída í Bandaríkjunum frá miðvikudegi fram á föstudag og talið er að minnst 50 íbúar ríkisins hafi látið lífið af völdum hans. Pétur Sigurðsson fasteignasali er búsettur í Orlando í Flórída. Hann segir flóðin sem fellibylurinn olli þau verstu sem orðið hafa í ríkinu í 200 ár og eyðilegginguna eftir því mikla. Íbúar taki þessu þó með jafnaðargeði, enda ýmsu vanir. 

Pétur segir að sér þyki mannlegi hlutinn stundum gleymast í umfjöllunum um hamfarir af þessu tagi. Fólk geti upplifað mikla ringulreið með síbreytilegum upplýsingum. 

„Þetta hefur gífurleg sálræn áhrif á fólk hérna. Menn gleyma dálítið að það er undirbúningur að þessu.“

Hann segir að þegar fellibylur sé í aðsigi hópist fólk í verslanir og birgi sig upp af matvælum, vatni, rafhlöðum og fleiru. Undirbúningur heima fyrir sé líka mikill. Sumsstaðar byrgi fólk til að mynda glugga á húsum sínum. Hann segir suma kæra sig kollótta, fólk sem sé þaulvant fellibyljum, á meðan aðrir verði mjög hræddir og reyni að flýja óveðrið. 

„Hérna, og bara allsstaðar þar sem var möguleiki á að hann færi yfir, tæmdust allar búðir af vatni, brauðmeti, ostum og mat sem geymist vel ef rafmagnið fer. Og sumir telja sig þurfa að kaupa mikið af klósettpappír eins og fyrir Covid.“

Rafmagnsleysi getur varað lengi

Pétur hefur búið á Flórída síðan 1998. Hann segist þrisvar eða fjórum sinnum hafa lent í því að verða rafmagnslaus í fjóra til fimm daga. Það sé auðveldara þegar ekki er mjög heitt í veðri.

„Þegar menn lenda í því að vera rafmagnslausir lengi og alvöru sumarhiti, þá er þetta dálítið erfitt.“

Pétur og fjölskylda hans sluppu við rafmagnsleysi í þetta sinn, en rafmagn fór af tveimur og hálfri milljón heimila. Hann segist halda að allt að ein og hálf milljón heimila sé ennþá án rafmagns. 

„Þar sem þetta er verst, þar verður rafmagnslaust í allavega viku.“

Miklar flóðaskemmdir eru á svæðinu í kringum Pétur. „Þessi flóð hérna hjá okkur, eða á öllu Flórída, það eru allavega 200 ár síðan við fengum svona flóð.“

Vita að þetta kemur aftur

Hann segist þó ekki verða var við mikinn ótta eða áhyggjur hjá fólkinu í kringum hann, þegar horft er til framtíðar og þeirra fellibylja sem hún ber í skauti sér. „Fólk tekur þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Við vitum að þetta kemur aftur, það er spurningin hvað er langt í það.“

Pétur segir að íbúar í Flórída séu öllu vanir og búi við þann veruleika að fellibylir geti alltaf látið á sér kræla. Þeir verði þó afskaplega ánægðir þegar svokallaðir fiskistormar verða. „Það er fellibylur sem fer upp Atlantshafið og kemur hvergi að landi. Hann er bara hjá fiskunum.“