Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rúmmál hraunsins svipað og 200 Reykjavíkurtjarnir

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Rúmmál hraunsins sem kom upp í Meradalagosinu í sumar er álíka og tvö hundruð Reykjavíkurtjarnir, en þó innan við tíundi hluti þess sem kom upp í Geldingadalagosinu í fyrra.

Enn er allt með kyrrum kjörum í Meradölum. Ekki hefur mælst virkni í gígnum í sex vikur eða frá 21. ágúst. Jarðvísindastofnun hefur ekki náð að mæla heildarmagn gosefna síðan gosinu lauk, þangað til í þessari viku, vegna þess að mælingarflugvélin sem er notuð til að fljúga yfir hraunið var upptekin í öðru.

Lítið gos miðað við önnur

„Þetta eru lokatölur um hversu stórt þetta gos var, það sýnir sig að þetta var lítið gos miðað við fyrra gosið. Það sem kom upp er 1/12 til 1/14 af því sem kom upp í því gosi. Þetta stóð náttlega miklu skemur. Þetta er með minnstu gosum. Það er bara þannig,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði.

Rúmmál hraunsins sem kom upp í Meradölum í ágúst er rúmlega 11 milljón rúmmetrar, það jafngildir 200 Reykjavíkurtjörnum. Flatarmál hrauns er rúmlega einn ferkílómetri. Það telst lítið miðað við gosið í Geldingadölum eða tæplega 8% af rúmmálinu sem þá kom upp og flatarmálið aðeins um fjórðungur.

Gosið í Geldingadölum í fyrra stóð í um hálft ár og skar sig úr því það efldist með tímanum. Gosið í ágúst er meira í takt við það sem vanalega sést hér á landi. „Þetta var töluvert öðruvísi hvernig þetta hegðaði sér, þetta var lang öflugast fyrst, þá var það miklu öflugra en hitt gosið var nokkurntíman, en svo dró mjög hratt úr svo var bara smá leki undir lokin og svo var þetta búið á átján dögum,“ segir Magnús Tumi.

Meðalþykkt hraunsins í Meradölum eru tæpir tíu metrar, þykkast er það við gíginn eða allt að 40 metrar. Við gíginn myndaðist hrauntjörn og þar er líklegt að ekki sé nema þriggja til fjögurra metra skorpa ofan á rúmlega 30 metra bráð. Þar tekur líklega nokkur ár fyrir hraunið að storkna að fullu.

Magnús Tumi segir sennilegt að gosið í Meradölum hafi í reynd verið lokin á gosinu árið á undan. „Það verður bara að koma í ljós hvort það gerist eitthvað meira eða hvort þetta var loka hnykkurinn í bili, það verður bara að koma í ljós.“