Opið fyrir umsóknir í Söngvakeppnina til þriðjudags

Systur, Sigga, Beta og Elín, á sinni annarri sviðsæfingu í Tórínó á Ítalíu.
 Mynd: EBU

Opið fyrir umsóknir í Söngvakeppnina til þriðjudags

01.10.2022 - 10:21

Höfundar

RÚV staðfestir þátttöku í Eurovision 2023 og aftur er leitað til vinsælla og reyndra höfunda. Erlendar Eurovision-stjörnur koma fram í úrslitakeppninni og allir geta sent inn lag. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti þriðjudaginn 4. október.

RÚV hefur staðfest þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin verður í Bretlandi í maí á næsta ári. Íslenska undankeppnin, Söngvakeppnin árlega, verður haldin í febrúar og mars og þá kemur í ljós hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision 2023.

Í fyrra fóru Systur, þær Sigga, Beta, Elín og Eyþór Eyþórs-og Ellenarbörn, til Ítalíu fyrir Íslands hönd með lagið Með hækkandi sól eftir Lay Low.

Lagið komst í úrslitakeppnina á Ítalíu og vakti mikla lukku. Nú hefur verið opnað fyrir innsendingar laga í Söngvakeppnina 2023 á slóðinni songvakeppnin.is. Opið er fyrir umsóknir til þriðjudagsins 4. október.

Eins og síðast keppa tíu lög hér heima og verða þau valin með sama hætti og undanfarin ár. Öllum gefst kostur á að senda inn lög sem sérstök valnefnd, skipuð fulltrúum FTT, FÍH og RÚV, gefur umsögn um. Einnig verður leitað til reyndra og vinsælla lagahöfunda um að semja nokkur laganna.

Undanúrslitin verða 18. og 25. febrúar og úrslitakvöldið er laugardaginn 4. mars þar sem fjögur lög keppa um að verða framlag Íslendinga í Eurovision 2023.

Framkvæmdastjórn keppninnar áskilur sér sem fyrr leyfi til að hleypa „einu lagi enn“ áfram í úrslitin. Gerist það keppa fimm lög til úrslita á lokakvöldinu.

Á síðustu árum hafa erlendar stórstjörnur úr Eurovision-heiminum troðið upp í Höllinni á úrslitakvöldinu, fólk á borð við Tusse, Eleni Foureira, Alexander Rybak, Loreen og Måns Zelmerlöw. Á því verður engin breyting í ár.

RÚV og framkvæmdastjórn keppninnar hvetja alla laga- og textahöfunda landsins til að senda inn lög og halda þannig áfram að móta tónlistarsögu Íslands. Söngvakeppnin snýst um fjölbreytni og allar tónlistartegundir eru velkomnar.

Í janúar á næsta ári verður tilkynnt hvaða lög taka þátt í þessum stærsta sjónvarpsviðburði ársins.