Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mannskæð skotárás í Södertälje, annan daginn í röð

01.10.2022 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: Blåljusbilder - SVT
Karlmaður á fimmtugsaldri var skotinn til bana í sænsku borginni Södertälje á laugardagskvöld, daginn eftir að maður á þrítugsaldri var myrtur með byssu í sama hverfi borgarinnar. Morðið var fjórða skotárásin í Södertälje á rúmri viku og lögreglan talar um vítahring ofbeldisverka í borginni, sem er skammt suður af Stokkhólmi. 50 manns hafa fallið fyrir byssukúlu í Svíþjóð það sem af er þessu ári, fimm fleiri en allt árið í fyrra, sem þó var metár að þessu leyti.

Tveir menn hafa verið handteknir, grunaðir um að hafa myrt unga manninn á föstudagskvöld, en enginn hefur enn verið handtekinn vegna illvirkisins á laugardagskvöld. Lögregla hefur yfirheyrt fjölda fólks vegna málsins og tæknideild hennar var með mikinn viðbúnað á vettvangi.

Fjórar árásir á rúmri viku - þrjár á sama blettinum

Maðurinn var skotinn á áttunda tímanum á laugardagskvöld að staðartíma, skammt frá skóla í hverfinu Ronna. Þrjár af skotárásunum fjórum voru framdar þar; á miðvikudag, föstudag og laugardag, en sú fjórða, sem gerð var á föstudag í liðinni viku, í öðru hverfi.

Vítahringur vaxandi ofbeldis

„Það sem við horfum upp á í Södertälje núna er vítahringur vaxandi ofbeldis sem við höfum ekki séð mjög lengi,“ sagði Caroline Aspegren yfirlögregluþjónn í viðtali við TV4. „Þetta er auðvitað ógnvænlegt og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hafa hendur í hári gerendanna.“

Skotárásum hefur fjölgað mikið í Svíþjóð síðustu misseri og þeim fer líka fjölgandi sem falla í slíkum árásum. Morðið á laugardagskvöld var fimmtugasta banvæna skotárásin í Svíþjóð á þessu ári og hafa þær aldrei verið fleiri.