Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lula mögulega kjörinn Brasilíuforseti strax í dag

epa10216661 Presidential candidate Luis Inacio Lula da Silva (C) greets supporters upon his arrival for a campaign rally in Fortaleza, Ceara, Brazil, 30 September 2022.  EPA-EFE/Jarbas Oliveira
Lula og stuðningsfólk hans er sigurvisst í aðdraganda kosninganna og ekki að ástæðulausu ef marka má skoðanakannanir Mynd: EPA-EFE - EFE
Fyrri umferð forsetakosninga í Brasilíu fer fram á sunnudag. Tvær skoðanakannanir sem birtar voru á laugardags kvöld benda til þess að mögulega þurfi ekki að halda aðra umferð, þar sem einn frambjóðandi gæti fengið rúman helming atkvæða á í þeirri fyrri. Átta eru í framboði en aðeins tveir frambjóðendur eiga möguleika á sigri í forsetakosningunum, þeir Jair Bolsonaro Brasilíuforseti og Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti.

Allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið frá því að sósíalistinn Lula varð formlegur frambjóðandi hafa sýnt hann með afgerandi forskot á þjóðernissinnaða frjálshyggjumanninn Bolsonaro og það á líka við um þessar nýjustu kannanir.

Lula með öruggt forskot

Í könnun Datafohla segjast 50 prósent aðspurðra ætla að kjósa Lula en 36 prósent Bolsonaro. Samkvæmt hinni, sem gerð er af IPEC, ætlar 51 prósent kjósenda að greiða Lula atkvæði sitt en 37 ætla að merkja við Bolsonaro.

Afgangurinn skiptist á milli sósíaldemókratans  Ciro Gomes, Simone Tebet, frambjóðanda Brasilísku Lýðræðishreyfingarinnar, sem skilgreind er sem miðjuflokkur, og fjögurra frambjóðenda til viðbótar sem allir mælast með innan við eins prósents fylgi.

Gangi þetta eftir og Lula fær yfir helming atkvæða á sunnudag þarf ekki að kjósa á milli tveggja efstu frambjóðenda - hans og Bolsonaros - í annarri umferð hinn 30. október. 

KJósa líka þingmenn og ríkisstjóra

Brasilíumenn kjósa ekki bara forseta í dag, heldur munu þeir líka kjósa alla fulltrúa í neðri deild Brasilíska þjóðþingsins og þriðjung fulltrúa í öldungadeildinni, ríkisstjóra allra 27 ríkja landsins og alla fulltrúa á þingi hvers ríkis að auki.