Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Herra Pútín, ekki misskilja það sem ég er að segja“

01.10.2022 - 14:22
epa10134609 Ukrainian Guard of Honor soldiers hoist a national flag in Odesa, Ukraine, 23 August 2022. Ukraine marks National Flag Day one day prior to Independence Day, which is celebrated on 24 August. Kharkiv and surrounding areas have been the target of heavy shelling since February 2022, when Russian troops entered Ukraine starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA
Hersveitir Úkraínumanna hafa umkringt borgina Lyman í Donetsk héraði sem verið hefur á valdi Rússa mánuðum saman. Fall Lyman er talið vera áfall fyrir hernaðaraðgerðir Rússa. Bandaríkjastjórn hefur boðað nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum, eftir að Rússlandsforseti tilkynnti í gær að fjögur héruð Úkraínu yrðu innlimuð í Rússland.

Harðir bardagar hafa staðið yfir síðustu daga. Í morgun greindi talsmaður hersins að Úkraínumenn hefðu náð á sitt vald fimm bæjum nálægt borginni Lyman sem Rússar hertóku í vor.

Á samfélagsmiðlum má sjá úkraínska fána sem komið hefur verið fyrir í útjaðri borgarinnar. Lyman er þýðingarmikil samgöngumiðstöð og takist Úkraínumönnum að ná borginni  á sitt vald er það talið mikið áfall í hernaðaraðgerðum Rússa.

Vesturveldin fordæma ákvörðun Putins Rússlandsforseta að innlima fjögur hérðuð í Úkraínu í Rússland. Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að óska eftir þrettán milljarða dollara fjárveitingu frá þinginu til stuðnings Úkraínu. 

Biden sagði að vesturveldin væru reiðubúin að verja sig og berjast um hvern einasta sentimetra af yfirráðasvæði NATO.

„Herrra Pútín, ekki misskilja það sem ég er að segja", sagði Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í gærkvöldi. Biden segir ákvörðun Rússa brot á alþjóðalögum og í sama streng tóku Emmanuel Macron forseti Frakklands og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATÓ. Biden boðaði í gær nýjar refsiaðgerðir sem miða að því að lama enn frekar varnar- og tæknigeira Rússa og fleiri atvinnugreina.  
 

Arnar Björnsson