Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við viljum bara fá hann heim“

30.09.2022 - 19:02
Hann verður að komast aftur heim til Íslands, segir fjölskylda manns sem hefur legið þungt haldinn á sjúkrahúsi á Spáni í rúman mánuð. Hún óttast um líf hans og segist koma að lokuðum dyrum hjá yfirvöldum hér á landi, sem neiti að greiða fyrir sjúkraflug. 

Gísli Finnsson er þrjátíu og fimm ára þriggja barna faðir. Hann fór út til Torrevieja á Spáni með félögum sínum í síðasta mánuði en sú ferð átti eftir að reynast örlagarík. 

„Þegar hann er búinn að vera þar í smá tíma þá fæ ég símtal bara óvænt fá einum kunningja hans á sunnudeginum 21. ágúst um það að það hafi eitthvað komið upp á og að hann væri mjög líklega á spítala,“ segir Kolbrún Gígja Björnsdóttir, barnsmóðir Gísla. 

Málið var hið dularfyllsta því frekari upplýsingar fékk Kolbrún ekki og spítalar könnuðust ekki við að hafa séð Gísla. 

„Það var svolítið bara eins og hann væri horfinn. Hann fannst ekki. Það vissi enginn neitt um hann,“ segir hún. 

Gísli Finnsson
 Mynd: Úr einkasafni - RÚV

Fjölskyldan hafði samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og lögregluna sem lögðu henni lið við leit að Gísla. Loks fannst hann - eftir vikuleit - á sjúkrahúsi. 

„Og þá er hann búinn að vera þar í viku í dái, enginn veit hvað kom fyrir eða hvar eða hvernig hann fannst. Í kjölfarið rétti ég þeim sjúkratryggingakortið hans og þeir taka mynd af því og þá, að okkur finnst, er loksins byrjað að sinna honum,“ segir Elísa Finnsdóttir, systir Gísla. 

Þær segjast ekki hafa neina hugmynd um hvað hafi komið fyrir - eina sem þær vita er að Gísli fór út með félögum sínum, í „djammferð“, og fannst síðan meðvitundarlaus, utandyra, 21. ágúst síðastliðinn. 

Sýnir aðeins viðbrögð við íslensku

Hann er með alvarlegar heilaskemmdir og alls óvíst er hverjar batahorfur hans eru. Þær segja Gísla sýna afar lítil viðbrögð þegar læknar tala við hann á ensku eða spænsku en að staðan sé allt önnur þegar hann heyri íslensku. 

„Ég var hjá honum með tíu ára dóttur okkar Gísla. Við vorum hjá honum í síðustu viku, og hann veit alveg að við erum þarna. Hann horfir á okkur til skiptis. Þegar hún talaði þá horfði hann á hana og þegar ég talaði þá horfði hann. Maður finnur það að hann heyrir í okkur og skilur okkur en þegar spænsku læknarnir tala við hann þá eru engin viðbrögð,“ segir Hildur Torfadóttir, barnsmóðir Gísla. Hún segir hann einnig sýna tilfinningar.

Gísli Finnsson

Grét þegar hann sá dóttur sína

„Já hann grét sko. Hann hágrét þegar hann sá okkur, mig og dóttur sína. Og við spiluðum fyrir hann uppáhaldslagið hans og hann grét. Hann sýnir alveg viðbrögð - það er eins og hann sé þarna en getur bara ekki tjáð sig,“ segir hún. 

Elísa systir hans segir að það sé augljóst að örvun Gísla sé fólkið hans og tungumálið hans. 

„Þeir [læknarnir] voru kannski að segja honum að reka út tunguna. Það gerðist ekki neitt en þegar ég bað hann um að gera það gerði hann það. Hann skilur mann. Hann er þarna en hann þarf bara örvunina. Hann þarf íslenskuna."

Þeim hefur verið tjáð að sjúkraflug til Íslands kosti átta milljónir. Enginn sé þó tilbúinn til að standa straum af þeim kostnaði.

Við höfum haft samband við borgaraþjónustuna, sjúkratryggingar, tryggingar, heilbrigðisráðuneytið og komum eiginlega bara að lokuðum dyrum alls staðar með að hjálpa okkur að koma honum heim,“ segir Hildur. 

Þær segja alla benda á alla og vita í raun ekki hvað þær geta gert í þessari stöðu. Fjölskyldan skiptist á að vera hjá Gísla og þess á milli fari kunningi þeirra sem er búsettur í Torrevieja í heimsókn til hans. 

„Ef hann ætti engan að, hvað þá? Þá væri hann bara búinn að vera þarna úti," segir Kolbrún Gígja. Hver dagur skipti máli. 

„Hver mínúta skiptir máli, sérstaklega þegar kemur að heilanum. Hann þarf aðstoð og hann er ekki að fá hana. Við viljum bara fá hann heim.“

Þær Elísa, Hildur og Kolbrún segjast ekki geta beðið lengur og hafa ákveðið að hrinda af stað söfnun til þess að koma Gísla heim. Þeim sem vilja leggja fjölskyldunni lið er bent á reikningsnúmerið:

0511-14-025021
Kt: 300890-2109

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV